Ekið á sjö ára gamalt barn á Akureyri

Rannsókn lögreglu er á frumstigi.
Rannsókn lögreglu er á frumstigi. mbl.is/​Hari

Ekið var á sjö ára gamalt barn á Hörgárbraut til móts við Stórholt á Akureyri um þrjúleytið í dag. Barnið var flutt til aðhlynningar á spítala og ekki er vitað um ástand þess á þessari stundu.

Rannsókn er á frumstigi segir fulltrúi lögreglunnar á Norðurlandi eystra í samtali við mbl.is. Nú rétt fyrir klukkan fimm var verið að opna fyrir umferð á nýjan leik en götunni var lokað á meðan rannsókn á vettvangi fór fram.

Ökumaðurinn er ekki grunaður um ölvunar- eða fíkniefnaakstur en það á eftir að taka skýrslu af honum.

Sól var lágt á lofti og umferð mikil þegar slysið átti sér stað og þær aðstæður gætu hafa átt þátt í því að slysið varð en það er þó ekki hægt að segja til um það á þessari stundu.

mbl.is