Náði að stinga fætinum í snjóskafl

Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona.
Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona. Rax / Ragnar Axelsson

Mjóu munaði að illa færi fyrir Eddu Björgu Eyjólfsdóttur leikkonu daginn sem söngleikurinn Vorið vaknar, sem hún leikur í, var frumsýndur á Akureyri fyrir rúmri viku. Edda Björg var þá að ganga heim úr sundi þegar hún rann í hálku en náði á elleftu stundu að stinga öðrum fætinum í snjóskafl. „Það var hífandi rok og ég hélt að ég myndi fjúka á haf út en slapp með skrekkinn. Þetta hefur örugglega litið út eins og atriði í teiknimynd,“ segir hún hlæjandi. 

– Urðu einhver vitni að þessum gjörningi?

„Ég ætla að vona ekki!“

Hún hlær aftur.

„Annars er ekkert eins fyndið og að sjá manneskju detta. Sjálf á ég það til að horfa á fólk detta á YouTube og guð minn góður hvað það er fyndið. Auðvitað agalegt – en fyndið. En þetta var bara hressandi og fall er fararheill, ekki síst á frumsýningardegi. En ég var með harðsperrur á eftir, eins og ég hefði verið að byrja í svakalegu átaki.“

Eddu Björgu hefur liðið vel á Akureyri. „Það hefur verið virkilega gaman að starfa fyrir norðan enda er Marta að gera frábæra hluti sem leikhússtjóri; hefur sett upp metnaðarfullar og skemmtilegar sýningar sem allir hafa gaman af. Mörtu líður mjög vel fyrir norðan og það smitar út frá sér. Ekki skemmir heldur fyrir að hafa tónlistarstjóra eins og Þorvald Bjarna Þorvaldsson og danshöfund á borð við snillinginn Lee Proud. Þarna er valinn maður í hverju rúmi.“

Edda Björg og Þorsteinn Bachmann fara með öll hlutverk fullorðinna í sýningunni og hún segir hreina unun að vinna með honum. „Við Steini náum mjög vel saman, ekki síst þegar kemur að stjörnuspekinni og hinum andlegu málum. Það er alltaf jafn gaman að vinna með honum og eiga hann sem vin. Ungu leikararnir í sýningunni eru líka frábærir og eiga framtíðina fyrir sér. Það er mikil orka og gleði í þessari sýningu, sem hljómar kannski eins og klisja – en það er bara þannig. Hjartað slær þarna í hverju horni.“

Edda Björg í einu af hlutverkum sínum í Vorið vaknar.
Edda Björg í einu af hlutverkum sínum í Vorið vaknar. Ljósmynd/Auðunn Níelsson


Saknaði fjölskyldunnar

Edda Björg býr í Reykjavík og hefur því verið langdvölum frá fjölskyldu sinni frá því að æfingar hófust fyrir norðan í byrjun desember. „Það getur verið erfitt að vera svona mikið í burtu, sérstaklega þegar maður á ung börn, en dóttir mín, Ísold Elsa, er sjö ára. Hún hefur saknað mín og ég hennar. Ég á hins vegar góðan mann, Stefán Má Magnússon, sem borið hefur hitann og þungann af heimilishaldinu undanfarna mánuði, auk þess sem sonur okkar, Kolbeinn Daði, sem er sautján ára, er mjög duglegur að hjálpa til. Hann er á fyrsta ári í Versló og stendur sig vel. Mig langar líka að nefna skólann hennar Ísoldar, Ísaksskóla, í þessu sambandi. Frábærlega er haldið utan um hana þar. Ég reyndi yfirleitt að koma heim um helgar en fyrir kom að ég var veðurteppt fyrir norðan. Þetta hefur verið harður vetur,“ segir Edda Björg. 

Nánar er rætt við Eddu Björgu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »