Ný slökkvistöð á Húsavík

Slökkviliðsbílar á Húsavík.
Slökkviliðsbílar á Húsavík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Ný slökkvistöð var formlega opnuð á Húsavík í gær og var Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, viðstaddur ásamt Hermanni Jónassyni, forstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), en brunavarnir fluttust til stofnunarinnar um áramótin.

Í fréttatilkynningu kemur fram að mikil uppbygging hafi verið í Norðurþingi síðustu misseri og því aukin krafa um gott slökkvilið, vel þjálfað og vel útbúið.

Nýja slökkviliðsstöðin á Húsavík.
Nýja slökkviliðsstöðin á Húsavík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Nýja slökkvistöðin inniheldur fjölbreytta aðstöðu, s.s. skrifstofur, kaffistofu, fræðslusal, stjórnstöð, búningsherbergi karla og kvenna, saunaklefa og sérstaka eldgallageymslu. Þá er þar einnig rúmlega 700 fermetra bílasalur úr stálgrind, klæddur með yleiningum sem inniheldur m.a. þurrkherbergi, þvottaherbergi, líkamsrækt, aðstöðu fyrir reykkafara, efnageymslu, tæknirými og verkstæði. Stálvirki hússins er allt eldvarið og í því eru sjálfvirkar reyklúgur og úðarakerfi. Útsog er fyrir bíla slökkviliðisins í gólfniðurföllum og húsið er útbúið með eigin varaaflsstöð,“ segir í tilkynningu.

Við þetta tilefni undirritaði forstöðumaður brunamála hjá HMS, Davíð S. Snorrason, nýja brunavarnaáætlun fyrir starfssvæði slökkviliðs Norðurþings. Markmið brunavarnaáætlunarinnar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þá brunaáhættu sem er í sveitarfélaginu.

„Brunavarnaáætlanir eiga að stuðla að því að vernda líf og heilsu fólks, umhverfi og eignir með fullnægjandi eldvarnaeftirliti og viðbúnaði við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi. Brunavarnaáætlanir gefa íbúum og stjórn sveitarfélagsins gott yfirlit yfir starfsemi og ástand slökkviliða og geta því orðið grunnur að gæðastjórnun og áætlun um endurbætur til dæmis hvað varðar búnað, menntun og samstarf við aðra aðila,“ segir í tilkynningu.

Við þetta tilefni sagði Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra m.a: „Brunamál og brunaöryggi skipta okkur sem samfélag miklu máli. Markmið mitt er að taka þennan málaflokk föstum tökum og efla til framtíðar. Bætt aðstaða slökkviliða, bæði til viðbragða, þjálfunar og fræðslu er fyrsta skrefið í þá átt að stórbæta brunavarnir landsmanna. Fátt getur valdið jafn miklu tjóni og alvarlegir brunar og við megum ekki láta staðar numið fyrr en það heyrir til undantekninga að brunaskaði verði í bæjum og sveitum landsins. Samfélagið allt þarf að búa við brunavarnir og forvarnir eins og best gerist. Þetta er á meðal þess sem ég vænti af nýrri Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, að hún stórefli brunavarnir mannvirkja, fræðslu og upplýsingagjöf til bæði heimila og fyrirtækja. Því er ánægjulegt að taka þátt í því ásamt forystufólki þessarar nýju stofnunar, HMS, að opna þessi glæsilegu nýju heimkynni slökkviliðisins í Norðurþingi á Húsavík,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is