Svömluðu í heita pottinum og rataði ekki heim til sín

Frá klukkan 17 í gærdag til 15 voru 75 mál …
Frá klukkan 17 í gærdag til 15 voru 75 mál skráð hjá lögreglunni. mbl.is

Mikið var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og voru 75 mál skráð frá klukkan 17 í gærdag og fram til klukkan 5 í nótt. Klukkan fimm í nótt voru sjö manns í fangaklefa vegna ýmissa mála.

Útköllin voru af ýmsum toga í nótt. Talsvert var um útköll vegna hávaða í heimahúsum, ölvunarmála af ýmsu tagi og stimpinga manna á milli. Nokkuð var um umferðaróhöpp vegna hálku sem myndaðist á höfuðborgarsvæðinu en engin slys urðu í þessum óhöppum. Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir þar sem þeir voru undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja.

Tveir menn voru handteknir í hverfi 105 vegna líkamsárásar og annar gisti í fangaklefa því hann var ekki í ástandi til skýrslutöku. Á sama stað voru nokkrir ökumenn undir áhrifum stöðvaðir. Kona var flutt á sjúkrahús eftir að flösku hafði verið hent í höfuðið á henni. 

Lögreglan í Hafnarfirði hafði afskipti af pari sem hafði skellt sér í heita pottinn í Suðurbæjarlauginni eftir lokun í nótt. Parið á yfir höfði sér kæru fyrir baðferðina. 

Í Grafavogi var haft samband við lögregluna vegna manns sem reyndist að komast inn í íbúðarhús án árangurs. Hann var mjög ölvaður og fór húsavillt en hann bjó í nágrenninu. Hann gat gefið lögreglunni upp rétt heimilisfang og var honum fylgt heim þar sem tekið var á móti honum.  

mbl.is