„Lægðin tekur yfir nánast allt Atlantshafið“

Vindur verður í hámarki milli klukkan 6 og 12 á …
Vindur verður í hámarki milli klukkan 6 og 12 á föstudaginn. Kort/Veðurstofa Íslands

Lægðin sem mun ganga yfir landið á föstudaginn verður djúp og víðáttumikil og það eru talsverðar líkur á því að hún verði að ofsaveðri eða fárviðri. Það verður ekkert skjól að hafa á Suðurnesjum og lítið skjól að hafa á Selfossi, Hellu, Hvolsvelli og Akranesi, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir með tveggja daga fyrirvara vegna komu lægðarinnar. Hún mun fyrst hafa áhrif á sunnanverðu landinu aðfaranótt föstudags en síðan um allt land eftir því sem líður á daginn.

Bú­ast má við víðtæk­um sam­göngu­trufl­un­um á land­inu og ekk­ert ferðaveður er á meðan viðvör­un­in er í gildi. Við suður­strönd lands­ins má bú­ast við því að vind­hviður við fjöll verði hættu­leg­ar og geti farið yfir 50 m/​s.

„Þetta er ljót spá“

„Þetta er ljót spá. Það verður ekkert af því tekið enda er þessi djúpa lægð sem kemur hérna upp að landinu óvenjulega djúp. Veðurhæðin er mjög mikil og sérstaklega sér maður hvassan vind í lofti yfir landinu. Spurningin er bara hvað af því skilar sér niður,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Hann segir lægðina vera svipaða annarri lægð sem gekk hér yfir fyrir ekki svo löngu síðan en munurinn sé sá að nú sé kalt loft fyrir á landinu sem þýði að vindstrengurinn verði snarpari.

Það sem er þó sérstakt við þessa lægð er að skilunum fylgir ekki sérstaklega mikil úrkoma suðvestan- og vestanlands. „Mesta úrkoman fellur á Suðaustur- og Austurlandi og spár gera ráð fyrir því að það snjói frá Eyjafjöllum og austur á firði. Það er dálítið sérstakt því yfirleitt sér maður nú bara snjókomu allra fyrst og svo slyddu og rigningu þegar vindur er svona. Það er kannski til marks um það að kalda loftið heldur dálítið á móti.“

„Denni dæmalausi“ er svo væntanlegur á laugardag

„Lægðin sem kemur á föstudaginn er dæmigerð lægð sem er stór og mikil. Lægðin tekur yfir nánast allt Atlantshafið, stjórnar veðri á stóru svæði og er víðáttumikil og djúp,“ útskýrir Einar.

Hún er þó ekki eina lægðin sem gengur yfir Atlantshafið um helgina því önnur lægð, sem hefur verið nefnd Dennis af bresku veðurstofunni og kölluð „Dennis the Menace“ eða „Denni dæmalausi“ af breskum fjölmiðlum gengur yfir Bretland á laugardaginn.

Áhöld eru uppi um hvort sú lægð muni skila sér alla leið til Íslands, segir Einar. Hún verður krappari og fer líklega aðeins fyrir sunnan og austan landið. En hvað þýðir að ein lægð sé krappari en önnur?

„Það þýðir að það er hvassari vindur á minna svæði umhverfis lægðarmiðjuna. En þegar lægðirnar eru djúpar og víðáttumiklar þá er ekki síður mikill vindur út frá lægðarmiðjunni,“ útskýrir Einar.

Veðrið verður verra í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins

Hann tekur fram að það verði varasamt að vera á ferli þegar lægðin gengur yfir þótt henni fylgi ekki mikil úrkoma, vindurinn verði svo hvass að það geti orðið erfitt að fóta sig. Þá bendir hann á að veðrið á höfuðborgarsvæðinu sé misjafnt eftir hverfum í austanátt.

„Það er miklu verra í efri byggðum eða efri hverfum höfuðborgarsvæðisins heldur en til dæmis í Vesturbænum, Laugardalnum, Hafnarfirði eða Garðabæ.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is