Rafmagnslaust í Hornafirði

Togarar við bryggju á Höfn í Hornafirði.
Togarar við bryggju á Höfn í Hornafirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rafmagnslaust er í öllu sveitarfélaginu Hornafirði vegna bilunar í dreifikerfi Landsnets. Jafnvel er talið að staurar í Hafnarlínu hafi brotnað, sem valdi biluninni. Unnið er að því að koma upp varaafli á svæðinu.

„Hafnarlína fór út hjá okkur klukkan 8:21 og það er rafmagnslaust á Höfn og svæðinu þar í kring. Við erum í bilanaleit og það lítur út fyrir að það sé brotinn staur eða brotnir staurar sem valda þessu,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, í samtali við mbl.is.

Venjulega er hægt að koma varaafli á í Hornafirði með varaleið en bilun í spenni hjá Rarik á Hólum veldur því að það er ekki hægt.

„Það er verið að leita þarna leiða til að koma á varaafli á svæðinu en það er ómögulegt að segja hvað það tekur langan tíma.“ 

Aðstæður mjög erfiðar á Suðurlandi

Vitað er um tíu truflanir á Suðurlandi. Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum undir Eyjafjöllum, rafmagnslaust er í Mýrdal og rafmagn er skammtað í Vík. Rafmagnslaust er í uppsveitum Árnessýslu, þ.m.t. hluti Biskupstungnanna og frá Reykholti að Laugarvatni og Svínavatni. Rafmagnslaust er við Þingvallavatn frá Miðfelli að Mjóanesi. Þá er rafmagnslaust í Holtum, Landsveit og upp með Heklubæjum. Einnig er rafmagnslaust í Landeyjum. Línan milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur er úti og þar með er rafmagnslaust í Álftaveri og hluta Skaftártungna.

Aðstæður á Suðurlandi eru mjög erfiðar og ekki hefur verið hægt að hefja truflanaleit. Vinnuflokkarnir eru tilbúnir um leið og rofar til í veðrinu.

Á Vesturlandi er vitað um tvær truflanir. Álma að Húsafelli er úti. Þar eru brotnar slár. Hvalfjarðarlína er úti og norðurhluti Hvalfjarðar og Svínadalur er rafmagnslaus. Mikil selta er á svæðinu.

mbl.is