Rauðar viðvaranir eru í gildi

Björgunarsveitir gæta þess að enginn fari inn fyrir lokuð svæði …
Björgunarsveitir gæta þess að enginn fari inn fyrir lokuð svæði en allar leiðir frá höfuðborgarsvæðinu eru lokaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rauðar viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, við Faxaflóa og á Suðausturlandi. Á höfuðborgarsvæðinu tók rauð viðvörun gildi klukkan 7 og hefur öllum leiðum frá höfuðborgarsvæðinu verið lokað. Um 200 björgunarsveitarmenn eru að störfum og er veðrið að versna. Þetta er í fyrsta skipti sem rauðar viðvaranir eru gefnar út fyrir þessi svæði en rauð viðvörun var í gildi á Norðurlandi vestra í óveðrinu um miðjan desember. 

Stjórnstöð almannavarna var virkjuð á miðnætti, en þar voru saman komnir fulltrúar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Landsbjargar, raforkugeirans og fjarskiptageirans. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti leysir Hellulína út sem og Hvolsvallarlína en hún hefur verið úti frá því klukkan 5:12. Vatnshamralína er komin inn á Brennimel. 

Á höfuðborgarsvæðinu er nú appelsínugul viðvörun í gildi en rauð frá klukkan 7 til klukkan 11. Þá tekur við appelsínugul viðvörun að nýju og gildir til klukkan 14. Austan 20-30 m/s á höfuðborgarsvæðinu og í nálægum sveitarfélögum. Örfá hverfi eru í þokkalegu skjóli fyrir austanátt og veðrið nær sér því síður á strik þar. Einnig má búast við snjókomu og skafrenningi og lélegu skyggni. Búast má við samgöngutruflunum á meðan veðrið gengur yfir og að flugsamgöngur leggist af. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdarsvæðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geti laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni.

Á Suðurlandi er rauð viðvörun í gildi til klukkan 12. Þá tekur við appelsínugul og gildir hún til klukkan 14. Austanrok eða -ofsaveður eða jafnvel fárviðri, 28-35 m/s. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 55 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum. Snjókoma með köflum og mikill skafrenningur líklegur. Miklar samgöngutruflanir og niðurfelling þjónustu líkleg. Sjávarstaða er hækkuð og mikill áhlaðandi og ölduhæð. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og vera ekki á ferð.

Við Faxaflóa gildir rauð viðvörun til hádegis en síðan appelsínugul til klukkan 17. Austanofsaveður eða -fárviðri, 28-35 m/s í og sunnan Borgarfjarðar en heldur hægari vindur annars staðar á spásvæðinu. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 55 m/s. Einnig má búast við snjókomu og skafrenningi með takmörkuðu skyggni. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar. Einnig má búast við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni.

Á Suðausturlandi gildir rauð viðvörun til klukkan 11 og þá tekur við appelsínugul viðvörun sem gildir til klukkan 13. Austanrok eða -ofsaveður, eða jafnvel fárviðri 28-35 m/s. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 55 m/s, einkum í Öræfum. Mikil snjókoma og skafrenningur. Miklar samgöngutruflanir og niðurfelling þjónustu líkleg. Sjávarstaða er hækkuð og mikill áhlaðandi og ölduhæð. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og vera ekki á ferð.

Við Breiðafjörð er appelsínugult ástand í gildi til klukkan 23. Norðaustanstormur eða -rok með vindhraða á bilinu 20-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi, í Dölunum og á Barðaströnd. Einnig er spáð talsverðrum éljagangi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Talsverður áhlaðandi, hækkuð sjávarstaða og mikil ölduhæð fylgir veðrinu.

Á Vestfjörðum er appelsínugult ástand einnig til klukkan 23. Norðaustanstórhríð, 20-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð mikilli snjókomu eða éljagangi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Talsverður áhlaðandi, hækkuð sjávarstaða og mikil ölduhæð fylgir veðrinu.

Strandir og Norðurland vestra. Appelsínugul viðvörun og gildir hún til klukkan 22. Austanstormur eða -rok með vindhraða á bilinu 20-30 m/s., hvassast á fjallvegum. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð talsverðum éljagangi á annesjum og heiðum með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Á Norðurlandi eystra er appelsínugult ástand í gildi frá klukkan 8 til klukkan 20. Stormur eða rok með vindhraða á bilinu 18-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð talsverðri snjókomu en mikilli á Tröllaskaga með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Austurland að Glettingi. Appelsínugult ástand frá klukkan 9 til 17. Austanstormur eða -rok með vindhraða á bilinu 20-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð talsverðri eða mikilli snjókomu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Á Austfjörðum er appelsínugult ástand í gildi til klukkan 23. Austan 20-28 m/s. Einnig er spáð talsverðri eða mikilli snjókomu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Talsverður áhlaðandi fylgir veðrinu. Líkur eru á að hláni í stutta stund á láglendi seint um daginn en kólni aftur um kvöldið.

Á miðhálendinu er appelsínugult ástand og gildir það til klukkan 22. Rok eða ofsaveður með vindhraða á bilinu 25-35 m/s. Búast má við mjög hvössum og hættulegum vindhviðum við fjöll, 40-45 m/s. Hættulegar aðstæður fyrir ferðamenn og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Flestar aðalleiðir á landinu eru lokaðar og er fólk beðið …
Flestar aðalleiðir á landinu eru lokaðar og er fólk beðið um að vera ekki á ferðinni. Miðað við veðurspá verður vonskuveður í dag og mun færð spillast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víða er búið að loka vegum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og eru allar helstu leiðir lokaðar og verða það fram eftir degi. Má þar nefna að Reykjanesbraut er lokuð, Grindavíkurvegur, Mosfellsheiði og eins er vegurinn um Kjalarnes lokaður. Veginum um Lyngdalsheiði hefur verið lokað.

Suðurstrandarvegur er lokaður, veginum um Hellisheiði hefur verið lokað og eins um Þrengsli. Á Vestfjörðum er ófært á Klettshálsi og þæfingsfærð og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að allar viðbragðsáætlanir hafi verið virkjaðar en hætta er á margháttuðum truflunum í flutningskerfi vegna aftakavinds af austri. Eru starfsmenn Landsnets og RARIK í viðbragðsstöðu.

Búast má við mikilli röskun á daglegu lífi á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Skólahald fellur niður í öllum leik- og grunnskólum höfuðborgarsvæðisins, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og ýmsum menntaskólum, svo sem MR, MH, Kvennó og Verzlunarskólanum. Þá falla ferðir Strætó niður fram eftir morgni, en búast má við frekari upplýsingum milli klukkan 10 og 11 í dag.

Hér er hægt að sjá hvaða leiðir eru lokaðar eða hvenær þeim verður lokað

mbl.is