Sendiráð Kanada keypti hús Sólveigar

Anne-Tamara Lorre, sendiherra Kanada á Íslandi við nýtt húsnæði sendiráðsins …
Anne-Tamara Lorre, sendiherra Kanada á Íslandi við nýtt húsnæði sendiráðsins við Fjólugötu 1. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi kaup sýna það að við erum komin til að vera. Við erum komin með framtíðarheimili á Íslandi og ég gæti ekki verið ánægðari,“ segir Anne-Tamara Lorre, sendiherra Kanada á Íslandi.

Sendiráð Kanada hefur fest kaup á húsinu að Fjólugötu 1. Húsið var í eigu Sólveigar Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og þykir eitt af þeim glæsilegri í miðborg Reykjavíkur. Staðsetningin er enda ekki amaleg – neðst í Þingholtunum, gegnt Hallargarðinum og skrifstofu forseta Íslands. Húsið er 473 fermetrar, tvær hæðir og kjallari auk tvöfalds bílskúrs og glæsilegs garðs. Sigurður Guðmundsson arkitekt teiknaði húsið, sem byggt var árið 1929. Það var endurnýjað árið 2002 og var þá reynt að halda í upprunalegt útlit hússins. Kaupverð hússins var 265 milljónir króna en fasteignamat þess er ríflega 174 milljónir.

Nýtt húsnæði sendiráðs Kanada við Fjólugötu.
Nýtt húsnæði sendiráðs Kanada við Fjólugötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðrir reyndu að yfirbjóða

Kaupin eiga sér nokkurn aðdraganda að sögn sendiherrans, sem tók á móti útsendurum Morgunblaðsins í gær og sýndi þeim húsið. Segir Anne-Tamara Lorre að sendiráðið hafi látið kanna markaðinn fyrir sig og hún hafi strax talið Fjólugötu 1 bera af þeim kostum sem í boði voru. Þó að húsið hafi verið til sölu um hríð hafi áhugi sendiráðsins hreyft við öðrum áhugasömum og reynt var að yfirbjóða Kanadamenn þegar skriður var kominn á viðskiptin. Kveðst sendiherrann vera þakklát Sólveigu Pétursdóttur og fjölskyldu fyrir afskipti af málinu. Sólveigu hafi ekki staðið á sama um það hver tæki við húsinu og sýn þeirra hafi farið vel saman.

Hátt til lofts og vítt til veggja

Að sögn Anne-Tamara verður Fjólugatan nýtt sem bústaður sendiherra Kanada. Skrifstofur sendiráðsins verða áfram við Túngötu 14. Síðasta áratug hefur bústaður sendiherrans verið í húsinu Skólabæ við Suðurgötu, skammt undan. Það hús hefur sendiráðið leigt af Háskóla Íslands.

Anne-Tamara segir að stefnan sé að halda í einkenni hússins en þó mun innanhússarkitekt frá Kanada koma til landsins innan tíðar og hafa umsjón með endurbótum. Þær fela meðal annars í sér að sameina tvær stofur í eina til að auðveldara sé að taka á móti stórum hópi gesta. Annars er hátt til lofts og vítt til veggja í húsinu og plássið ekki áhyggjuefni. Í íbúð sendiherrans er þannig hjónasvíta og rúmgott fataherbergi. Í kjallara er síðan lítil íbúð sem nýst getur fyrir gesti sendiráðsins og sérútbúinn vínkjallari. Þá er þar einnig skrifstofurými þar sem hægt er að sinna þjónustu sendiráðsins ef á þarf að halda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »