Varaafl ræst í Vestmannaeyjum

„Það er öryggisráðstöfun,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
„Það er öryggisráðstöfun,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. mbl.is/Óskar

Unnið er að því að ræsa varaafl í Vestmannaeyjum til að tryggja þar stöðugri rekstur. Víða hafa verið rafmagnstruflanir á Suður- og Vesturlandi í morgun.

„Það er öryggisráðstöfun,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, í samtali við mbl.is. „Heilt yfir hefur gengið vel í nótt. Við höfum ekki verið í miklum vandræðum með flutningskerfið. Þrjár línur hafa dottið út en það hefur ekki valdið straumleysi hjá notendum.“

Rafmagnsbilun er hjá Rarik í Vík í Mýrdal þar sem verið er að reyna að koma rafmagni á með vélakeyrslu og eru íbúar vinsamlegast beðnir um að spara rafmagnsnotkun og kyndingu. 

Þá hafa verið rafmagnsbilanir frá Reykholti að Laugarvatni og Svínavatni, við Þingvallavatn, á Rangárvöllum, undir Eyjafjöllum, í Biskupstungum, við Húsafell, í Hvalfirði og Svínadal. Verið er að leita að bilunum á þessum svæðum og eru þeir sem telja sig hafa upplýsingar sem gætu hjálpað við bilanaleit vinsamlega beðnir að hafa samband við svæðisvaktir Rarik.

mbl.is