Andlát: Sigurður Árnason

Sigurður Árnason.
Sigurður Árnason.

Sigurður Árnason, tónlistarmaður og kerfisfræðingur, lést 15. febrúar, á 73. aldursári. Sigurður, kallaður Siggi Árna, fæddist í Reykjavík 12. desember 1947, sonur Árna Sigurðssonar, starfsmanns Rafmagnsveitna Reykjavíkur, og Sigríðar Jónínu Guðmundsdóttur húsmóður.

Sigurður ólst upp í Laugarneshverfi í Reykjavík og var farinn að spila í hljómsveitum áður en hann lauk gagnfræðaprófinu. Fyrsta skólahljómsveitin var Strengir, síðan lék hann með Tónum þar til hann stofnaði hljómsveitina Sálina árið 1968. Hún varð skammlíf og ári síðar var Sigurður meðal stofnenda Náttúru ásamt Jónasi R. Jónssyni söngvara, Rafni Haraldssyni trommuleikara og Björgvini Gíslasyni gítarleikara. Naut hljómsveitin mikilla vinsælda næstu árin og var Siggi jafnan kenndur við þá hljómsveit. Var hann kjölfestan í sveitinni ásamt Björgvini en meðal þeirra sem komu og fóru voru Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla), Pétur Kristjánsson, Jóhann G. Jóhannsson, Shady Owens og Karl Sighvatsson.

Eftir að hafa leikið með Náttúru sneri Sigurður sér meira að upptökustjórn, m.a. hjá SG-hljómplötum og Hljóðrita. Hann var upptökustjóri á fyrstu plötu Bubba Morthens, Ísbjarnarblús, auk þess sem hann útsetti titillagið og lék á bassa í því. Seinna lærði Sigurður kerfisfræði og starfaði sem slíkur hjá Blindrafélaginu, RÚV og síðast Jarðfræðideild Háskóla Íslands.

Sigurður kvæntist Þorbjörgu Kristjánsdóttur árið 1968 og eignuðust þau tvær dætur, Erlu, f. 1968, og Elínborgu, f. 1971. Barnabörnin eru orðin sex talsins. Sigurður og Þorbjörg skildu árið 1977 en voru ætíð góðir vinir. Þorbjörg lést í október sl., tæplega sjötug að aldri.

Útför Sigurðar mun fara fram í kyrrþey.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »