Sleppi ferðalögum til svæða í sóttkví

Um 50 þúsund manns eru í sóttkví á Ítalíu vegna …
Um 50 þúsund manns eru í sóttkví á Ítalíu vegna kórónuveirunnar. AFP

Samkvæmt áhættumati Sóttvarnastofnunar Evrópu aukast líkur á að tilfelli kórónuveirunnar COVID-19 komi til landa Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins, þar með talið Íslands, frá öðrum löndum en Kína.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra vegna veirunn­ar.

Sóttvarnalæknir ráðleggur fólki að sleppa ónauðsynlegum ferðum til Lomb­ar­dia, Venetó, Emilía Rómanja og Píemonte á Ítalíu. Ekki er mælt gegn því að fólk ferðist á skíðasvæði á Norður-Ítalíu en þau eru utan áhættusvæða og engin tilfelli hafa verið tilkynnt þaðan.

Enn hef­ur eng­inn greinst með kór­ónu­veiruna COVID-19 á Íslandi, en alls hafa 33 sýni verið rann­sökuð.

Í skýrslunni kemur fram að fjöldi tilfella í löndum utan Kína hefur aukist síðastliðna daga, þar á meðal hafi þeim fjölgað úr þremur í 132 á Ítalíu.

Ferðamenn sem fá einkenni og eru nýkomnir heim frá sveitarfélögum á Ítalíu þar sem sýkingar hafa greinst ættu að hringja í 1700 og greina frá ferðasögu sinni.

Enn fremur segir að litlar líkur séu á því að veiran verði lýðheilsuógn í löndum Evrópu sem beiti einangrunar- og sóttkvíaðgerðum. Sýkingin geti hins vegar orðið íþyngjandi fyrir þá sem sýkjast.

mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir