Fimm afbókanir með flugi í hádeginu til Tenerife

Ítalski læknirinn sem greindist með kórónaveiruna COVID-19 er í sóttkví …
Ítalski læknirinn sem greindist með kórónaveiruna COVID-19 er í sóttkví á sjúkrahúsi á Tenerife. AFP

Fimm einstaklingar afbókuðu ferð til Tenerife með ferðaskrifstofunni Heimsferðum í morgun með flugi sem fer í loftið samkvæmt áætlun klukkan 12:15 í dag með flugfélaginu Norwegian. Þetta staðfestir Tómas J. Gestsson framkvæmdastjóri Heimsferða. 

Ítalskur læknir greindist með kórónuveiruna COVID-19, á Tenerife og hefur hótelið sem hann dvelur á verið sett í sóttkví. Á því hóteli dvelja sjö Íslendingar en þeir keyptu sér ferð með ferðaskrifstofunni Vita. Hann sjálfur er í einangrun á sjúkrahúsi. 

135 Íslendingar á leið til Tenerife

Um 135 Íslendingar eru á leið út til Tenerife með flugvél Norwegian eftir nokkrar klukkustundir. Í hinum tæplega 50 sætum sitja farþegar á vegum Norwegian.

„Við vitum ekki af nema þessu eina tilfelli enn sem komið er. Við verðum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast en það er enginn faraldur í gangi samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum,“ segir Tómas.  Hann tekur fram að það sé eðlilegt að fólk sé smeykt þegar svona kemur upp, sérstaklega hjá þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. 

Fararstjórar á vegum fyrirtækisins líkt og allir aðrir fylgja leiðbeiningum frá embætti landlæknis um hvernig haga skuli sóttvörnum. 

Engar afbókanir farþega Heimsferða voru með flugi sem fór með Icelandair í morgun klukkan 9:31.  

mbl.is

Kórónuveiran

7. apríl 2020 kl. 13:13
1586
hafa
smitast
559
hafa
náð sér
39
liggja á
spítala
6
eru
látnir