Forsetahjónin í opinbera heimsókn til Póllands

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við Höfða á síðasta …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við Höfða á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú halda í opinbera heimsókn til Póllands mánudaginn 2. mars. Með í för verður Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt sendinefnd sem í eru fulltrúar ráðuneyta, fræðasamfélags, Íslandsstofu og embættis forseta.

Heimsóknin hefst formlega með móttökuathöfn við forsetahöllina í Varsjá að morgni þriðjudagsins 3. mars og í kjölfarið munu forsetarnir og sendinefndir þeirra eiga fund. Þá undirrita menntamálaráðherrar beggja landa minnisblað um aukið samstarf á sviði menntunar, að því er segir í tilkynningu.  

Frá forsetahöllinni verður farið að Pilsudski-torgi í miðborg Varsjár þar sem forseti Íslands mun leggja blómsveig að gröf óþekkta hermannsins. Síðan verður haldið á ráðstefnu um styrki Evrópska efnahagssvæðisins til verkefna á sviði umhverfis, orku og loftslagsbreytinga og munu forsetarnir ávarpa gesti þar.

Í kjölfarið fer forseti Íslands ásamt sendinefnd á fund Elzbieta Witek, forseta pólska þingsins, og um kvöldið býður forseti Póllands til hátíðarkvöldverðar.

mbl.is