Gul viðvörun í norðaustanhríð

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er allhvassri eða hvassri norðaustanátt með snjókomu eða éljum norðan og austan til í dag. Gefnar hafa verið út gular viðvaranir á norðurhluta landsins og má búast við því að færð spillist. Sunnanlands verður þó mun hægari vindur fram á kvöldið og úrkomulítið. Frost 0 til 8 stig.

„Stíf norðaustanátt á morgun og víða él, en bjart veður á Suður- og Suðvesturlandi.
Austlægari vindur á fimmtudag og þá er útlit fyrir á snjókomu á suðvestanverðu landinu en lítils háttar él norðan- og austanlands. Áfram kalt í veðri. Og að lokum: það er snjóþekja á nær öllu landinu og því rétt að biðja fólk að muna eftir smáfuglunum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Ekki gleyma smáfuglunum.
Ekki gleyma smáfuglunum. mbl.is/Árni Sæberg

Gul viðvörun tók gildi klukkan 4 í nótt á Vestfjörðum og gildir til miðnættis. „Norðaustan 13-20 m/s og snjókoma með köflum. Búast má við talsverðum skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir eru líklegar.“

Á Ströndum og Norðurlandi vestra tekur gul viðvörun gildi klukkan 8 og gildir til klukkan 20 í kvöld. „Norðaustan 13-18 m/s og snjókoma á Tröllaskaga og á Ströndum, en úrkomuminna annars staðar. Búast má við skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir eru líklegar.“

Á Norðurlandi eystra er gul viðvörun í gildi frá klukkan 8 og gildir hún til klukkan 22 í kvöld. „Norðaustan 13-18 m/s og snjókoma, sums staðar talsverð. Búast má við skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir eru líklegar.“

Gul viðvörun er í gildi á Austurlandi að Glettingi frá klukkan 10 til klukkan 5 í fyrramálið. „Norðaustan 13-18 m/s og snjókoma, sums staðar talsverð. Búast má við skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir eru líklegar.“

Veðurspáin fyrir daginn í dag og næstu daga

Gengur í norðaustan 13-20, hvassast NV-til, þó mun hægari vindur sunnan heiða fram á kvöld. Snjókoma eða él, fyrst N-lands en úrkomulítið á S- og SV-landi. Frost 0 til 8 stig.

Norðaustan 10-18 á morgun. Bjart veður á S-verðu landinu, annars víða él.

Á miðvikudag:

Norðaustan 8-15 m/s og él N- og A-lands, en bjart veður á S- og V-landi. Frost 1 til 8 stig.

Á fimmtudag:
Austan 10-15 og snjókoma á S- og SV-landi, annars hægari og dálítil él. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum NA-lands.

Á föstudag:
Austlæg átt og snjókoma með köflum, einkum á SA- og A-landi. Frost 1 til 8 stig, en hiti um frostmark við S-ströndina.

Á laugardag:
Norðaustanátt og slydda eða snjókoma, en úrkomulítið SV-til á landinu. Frost 0 til 8 stig.

Á sunnudag og mánudag:
Breytileg átt og snjókoma eða él.

Veður á mbl.is

mbl.is