Mæla ekki gegn ferðum til Tenerife

Í stöðuskýrslu almannavarna segir að þegar Íslendingar sem ferðast frá …
Í stöðuskýrslu almannavarna segir að þegar Íslendingar sem ferðast frá Tenerife koma heim til Íslands er nauðsynlegt að þeir fylgi fyrirmælum íslenskra heilbrigðisyfirvalda sem uppfærð eru reglulega og birt á vef embættis landlæknis. mbl.is/Eggert

Engar vísbendingar eru um að fleiri en eitt tilfelli af kórónuveirunni COVID-19 hafi greinst á Tenerife og að veiran hafi breiðst út, að minnsta kosti enn sem komið er. Ekki er því mælt gegn ferðum Íslendinga til Tenerife, að sinni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í stöðuskýrslu al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra vegna veirunn­ar sem gefin var út eftir hádegi.

Ítalsk­ur lækn­ir greind­ist með kór­ónu­veiruna COVID-19, á Teneri­fe og hef­ur hót­elið sem hann dvel­ur á, H10 Costa Adeje Palace hótelinu, verið sett í sótt­kví. Á því hót­eli dvelja sjö Íslend­ing­ar en þeir keyptu sér ferð með ferðaskrif­stof­unni Vita. Læknirinn er sjálf­ur í ein­angr­un á sjúkra­húsi. Sóttvarnalæknir mun í dag safna upplýsingum um hvort og þá hvaða einstaklingar hafa dvalið á hótelinu og eru nú komnir til landsins eða eru á leið heim. 

Í stöðuskýrslu almannavarna segir að þegar Íslendingar sem ferðast frá Tenerife koma heim til Íslands er nauðsynlegt að þeir fylgi fyrirmælum íslenskra heilbrigðisyfirvalda sem uppfærð eru reglulega og birt á vef embættis landlæknis. 

Alls hafa 35 sýni verið rannsökuð af sýkla og veirufræðideild Landspítalans og reyndust þau öll neikvæð. 

Erfitt að koma í veg fyrir að veiran berist hingað

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist grannt með ástandinu og í gær voru fulltrúar sóttvarnalæknis viðstaddir fjarfundi alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Sóttvarnastofnunar Evrópu. Í skýrslunni segir að reglulega berist nánari upplýsingar um einkenni veirunnar, þar á meðal vægar, einkennalausar sýkingar og langan meðgöngutíma. 

Vegna þess má búast við að í framhaldinu komi upp hópsýkingar á fleiri stöðum hliðstæðar því sem á sér stað á Ítalíu. Ítölsk yfirvöld hafa beitt miklum aðgerðum á flugvöllum til að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið en skimanir hafa ekki skilað árangri. Sýnir það hversu erfitt er að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands, segir í skýrslunni.

mbl.is

Kórónuveiran

31. mars 2020 kl. 13:07
1135
hafa
smitast
173
hafa
náð sér
36
liggja á
spítala
2
eru
látnir