Skoða hvort brestur sé í upplýsingagjöf

Enginn hefur greinst smitaður af kórónuveirunni á Íslandi.
Enginn hefur greinst smitaður af kórónuveirunni á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur fengið ábendingar þess efnis að fólk fái misvísandi skilaboð þegar það hringir í síma 1700 til þess að láta vita af sér eftir ferðalög til svæða þar sem tilfelli kórónuveirunnar COVID-10 hefur komið upp og fá leiðbeiningar.

Rögnvaldur Ólafsson, lög­reglu­full­trúi hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, segir í samtali við mbl.is að sóttvarnalækni hafi verið gert viðvart og að verið sé að skoða málið.

Lífeindafræðingur á Landspítalanum, sem stödd var í Veneto-héraði á Ítalíu 2. til 13. febrúar ásamt hópi íslenskra fríkafara, segir að hún og ferðafélagar hennar hafi fengið misvísandi skilaboð þegar þau hringdu í 1700 til að láta vita af sér, líkt og beint hefur verið til fólks sem ferðast hefur til svæða þar sem tilfelli kórónuveirunnar COVID-19 hafa komið upp.

„Þetta þarf að skoða og það þarf líka að skoða tímarammann, þessar leiðbeiningar náttúrulega breytast og það fer kannski eftir því hvenær fólk hringdi. En þau eru að skoða þetta,“ segir Rögnvaldur.

Eðlilegt í almannavarnaástandi

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, staðfestir í samtali við mbl.is að verið sé að fylgja ábendingunni eftir. „Við erum að elta þessi mál og skoða hvort einhver brestur sé í upplýsingagjöf í gegnum 1700,“ segir Kjartan og að að sjálfsögðu verði úr því bætt ef svo reynist.

„Hingað til höfum við heyrt af því að það sé misræmi í því sem fólk er að heyra og það er svo sem viðbúið á svona viðkvæmu stigi eins og er núna, þar sem fólk er með allskonar spurningar, það er eðli þess að vera í almannavarnaástandi, en þeim mun mikilvægara er því að finna þessa hnökra og greiða úr þeim.“

mbl.is

Kórónuveiran

31. mars 2020 kl. 13:07
1135
hafa
smitast
173
hafa
náð sér
36
liggja á
spítala
2
eru
látnir