Væsir ekki um Íslendingana í einangrun

Um 1000 manns eru í einangrun á hótelinu.
Um 1000 manns eru í einangrun á hótelinu. AFP

„Þeim líður eftir atvikum vel en það væsir ekki um þau á þessu hóteli. Okkar aðalfararstjóri er í góðum samskiptum við þau,“ segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vita, um Íslendingana sjö sem eru í sóttkví á hóteli á Tenerife vegna kórónuveirusmits sem greindist meðal fjögurra gesta á hótelinu. Alls eru um 1000 manns þar í sóttkví, 800 gestir og 200 starfsmenn. 

Full vél af Íslendingum flýgur með ferðaskrifstofunni til Tenerife næsta laugardag. Þráinn segir ekki margar afbókanir vera vegna kórónuveirunnar. Þær fáu afbókanir sem hafa orðið er hjá fólki sem er komið vel á efri ár og er með undirliggjandi sjúkdóma. „Fólk virðist átta sig á því að það er ekki hættulegra að fljúga til Tenerife en til meginlands Evrópu,“ segir Þráinn. 

Góð viðbrögð Spánverja

„Spánverjarnir virðast vera að gera þetta mjög vel. Þer eru með viðbragðsáætlun. Öllu var lokað á innan við klukkutíma eftir að það heyrðist um smit. Þeim er umhugað um að passa upp á sitt gull sem eru ferðamenn,“ segir Þráinn. 

Hann tekur fram að öll upplýsingagjöf frá sóttvarnarlækni og embætti landlæknis séu skýr og til fyrirmyndar. Í máli þeirra í gær kom skýrt fram að ekki væri hægt að mæla gegn ferðum fólks til Tenerife.   

Þráinn bendir á að á hverjum degi eru tugir eða jafnvel um 100 flug allstaðar úr heiminum til eyjarinnar Tenerife daglega. „Við lútum þeim lögmálum sem opinber yfirvöld og flugmálayfirvöld gefa okkur á Tenerife. Ef þeir sjá ástæðu til að loka landinu þá lútum við þeim ákvörðunum en við tökum ekki sjálfstæða ákvörðun um að hætta við flug hér. Enda engin ástæða til,“ segir Þráinn.  

mbl.is

Kórónuveiran

31. mars 2020 kl. 13:07
1135
hafa
smitast
173
hafa
náð sér
36
liggja á
spítala
2
eru
látnir