Eiður Smári í rusli

Bílstjórinn Eiður Smári Björnsson galvaskur með tunnur við fjölbýlishús í …
Bílstjórinn Eiður Smári Björnsson galvaskur með tunnur við fjölbýlishús í Grafarholti í gærmorgun. mbl.is/Sigurður Bogi

„Tunnurnar voru alveg sneisafullar,“ segir Eiður Smári Björnsson sendibílstjóri. Menn í þeirri þjónustu hafa síðustu daga í nokkrum mæli verið beðnir um að fara í Sorpu með rusl frá heimilum, sem ekki hefur verið tæmt síðan verkfall Eflingarfólks hjá Reykjavíkurborg hófst á mánudag í síðustu viku.

Morgunblaðið hitti Eið Smára í Grafarholti í gærmorgun hvar hann var við fjölbýlishús með tveimur stigagöngum. Samtals 17 sorptunnur í byggingunni tóku ekki meira og íbúar gripu því til sinna ráða og hringdu í bílstjórann, sem fór með dallana í móttökustöðina í Gufunesi, tæmdi þar og skilaði aftur á sama stað. Tunnur fyrir pappír og plast í sama húsi voru látnar óhreyfðar. Í einhverjum blokkum í borginni hefur aðgengi að sorprennum og -geymslum verið lokað. Þá hafa verið settir upp miðar þar sem mælst er til þess að fólk fari sjálft með úrganginn á gámastöðvar.

Verkefni Eiðs í gærmorgun sýnir í hnotskurn hvernig hagkerfið snýst, það er að þörf eftir þjónustu skapar viðskipti og tækifæri. „Svona ruslatunnudæmi eru að detta inn núna og væntanlega verður mikið að gera í þessu ef verkfallið dregst á langinn. Nú er orðið alveg bráðnauðsynlegt að tæma tunnur, því þegar sorpið liggur lengi fer að koma fýla frá því,“ segir Eiður Smári, sem kveðst hafa orð sér fróðara fólks fyrir því að þjónusta þessi sé ekki verkfallsbrot. Sem einyrkja í rekstri sé sér þetta heimilt.

Kemur ekki til greina

„Við höfum fengið fyrirspurnir um svona verkefni, en verkfallsbrot koma ekki til greina af okkar hálfu,“ segir Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra. Fyrirtækið sinnir sorphirðu við heimili víða á höfuðborgarsvæðinu, en ekki þó í Reykjavík. Það verkefni er í höndum borgarstarfsmanna sem eru í Eflingu og þar með verkfalli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »