Vél sem er sögð farin enn í stæði

Vél SAS stendur sem fastast á Keflavíkurflugvelli.
Vél SAS stendur sem fastast á Keflavíkurflugvelli. AFP

Flugvél skandinavíska flugfélagsins SAS, sem átti að fara í loftið frá Keflavík til Óslóar klukkan 12:45 í dag stendur enn í stæði þrátt fyrir að á vef Isavia standi að vélin hafi farið í loftið 13:40. Að sögn upplýsingafulltrúa Isavia gengur hægt að afísa vélina.

„Það gengur hægt að afísa vélina,“ segir Guðjón og bendir á að það sama hafi átt við um sex flugvélar Icelandair í morgun. Umræddar vélar Icelandair fóru um tveimur tímum síðar í loftið en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Guðjón bendir á að Icelandair sjái um afísingu sinna flugvéla og einhverra erlendra flugfélaga. Fyrirtækið Airport Associates sjái um önnur erlend félög.

„Ég held að aðstæður séu þannig að þetta gangi hægar,“ segir Guðjón en veðrið á suðvesturhorninu hefur ekki verið með besta móti í dag.

Gul viðvörun er í gildi á suðvesthorninu en spár gera ráð fyrir 18 til 23 m/s í kvöld með vindhviðum allt að 35 m/s. Guðjón segir að ekki hafi verið gerðar sérstakar ráðstafanir vegna veðurs en hvetur flugfarþega til að fylgjast með vefsíðu Isavia.

mbl.is