Úr sóttkví á Tenerife og beint í heimasóttkví

Nokkrir Íslendingar koma heim til Íslands úr sóttkví á hóteli …
Nokkrir Íslendingar koma heim til Íslands úr sóttkví á hóteli á Tenerife og beint í heimasóttkví á sunnudaginn. AFP

Hluti Íslendinganna sem eru í sóttkví vegna kórónuveirunnar á H10 Costa Adeje Palace-hót­el­inu á Teneri­fe koma heim til landsins með flugi á sunnudaginn. Þegar þeir koma til landsins með almennu farþegaflugi fara þeir beint í heimasóttkví. Þetta staðfestir Kjartan Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi embættis landlæknis. Hann tekur fram að þetta sé miðað við stöðuna eins og hún er núna. 

Um er að ræða nokkra Íslendinga sem eru á hótelinu á eigin vegum en þeir bókuðu ekki ferð með ferðaskrifstofunni Vita. Samkvæmt upplýsingum frá Þráni Vigfússyni, framkvæmdastjóra Vita, hafa hinir Íslendingarnir sjö sem eru á hótelinu ekki fengið leyfi til að fara heim. 

Í gær fengu 130 manns að fara heim af hótelinu. 

„Fólkið er ekki veikt. Það sýnir engin einkenni. Það hefur verið farið vel yfir það með því að það haldi áfram að huga vel að eigin hreinlæti, haldi til dæmis klút yfir vitin ef það hóstar eða hnerrar,“ segir Kjartan.   

Hinir farþegarnir í fluginu heim frá Tenerife þurfa ekki að fara í sóttkví við heimkomuna, að sögn Kjartans. Hann ítrekar að sáralitlar líkur séu á því að einstaklingur sem sýnir jafnvel væg einkenni veirunnar geti smitað aðra svo lengir sem hann fylgir nákvæmlega fyrirmælum sóttvarnalæknis um hreinlæti. Að því sögðu er ekki talin ástæða til að koma fólkinu heim með öðrum hætti. 

„Við erum ekki að tala um mislinga sem eru á hinn bóginn gríðarlega smitandi. Ef smitandi mislingaberi er um borð gætu þeir farþegar sem ekki eru bólusettir veikst. Við erum ekki að tala um slíkt í tilviki kórónuveirunnar,“ segir Kjartan. 

Á vef embættis landlæknis eru frekari upplýsingar og leiðbeiningar til fólks vegna kórónuveirunnar. Almennt er fólk hvatt til að gæta að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni. 

mbl.is

Kórónuveiran

1. júní 2020 kl. 13:23
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir