Hafa ekki óskað eftir sérstökum aðgerðum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsvarsmenn Icelandair hafa ekki óskað eftir sérstökum aðgerðum stjórnvalda til að aðstoða fyrirtækið vegna ferðabannsins sem bandarísk stjórnvöld lögðu á í nótt. „Ekki að þessu sinni. Þetta var meira upplýsingafundur en ekki ákvarðanafundur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, aðspurður en mbl.is náði tali af honum á leið hans úr Stjórnarráðinu þar sem hann hafði fundað með ríkisstjórninni. 

Er fundi Boga með ráðherrum lauk, hófst ríkisstjórnarfundur í Stjórnarráðinu en þar stendur meðal annars til að ræða frekari aðgerðir stjórnvalda til að létta undir með atvinnulífinu vegna þess samdráttar sem útbreiðsla kórónuveirunnar hefur haft í för með sér.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var spurður að því í Bítinu á Bylgjunni í morgun hvort til greina kæmi að hjálpa Icelandair fjárhagslega. Svaraði Bjarni því til að allt yrði gert sem „raunhæft“ væri til að hjálpa félaginu en að ekki væri tímabært að ræða nákvæmlega í hverju þær aðgerðir fælust.

Bogi Nils segir forsvarsmenn Icelandair hafa átt í góðum samskiptum við stjórnvöld frá því veiran fór að breiðast út, og á von á að því verði haldið áfram næsu daga.

Í tilkynningu frá Icelandair í morgun kom fram að félagið myndi áfram fljúga til New York, Chicago, Seattle og Washingt­on D.C með bandaríska farþega og aðra sem bannið nær ekki til. Flug til Bost­on, Den­ver, Minn­ea­pol­is og Or­lando verða hins vegar felld niður.

Spurður hvort hann telji líklegt að Icelandair geti haldið úti flugi til áfangastaðanna fjögurra í heilan mánuð, þann tíma sem ferðabann Bandaríkjastjórnar gildir, segir Bogi það verða að koma í ljós. „Við fáum nýjar upplýsingar inn í okkar kerfi daglega og þurfum að taka þær forsendur og breyta okkar plönum. Þetta er allt breytingum háð.“

Engar breytingar hafa verið gerðar á ferðaáætlun félagsins til Evrópu, en aðspurður segist Bogi ekki geta útilokað að það gæti gerst. „Það veltur í raun allt á bókunarflæðinu. Ef hægist enn meira á því þá gæti farið svo að við þurfum að breyta eitthvað áætlunum til Evrópu,“

mbl.is/Eggert
mbl.is

Kórónuveiran

1. júní 2020 kl. 13:23
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir