Stóra málið að þjappa lögreglunni saman

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem tekur við embætti ríkislögreglustjóra eftir helgi, …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem tekur við embætti ríkislögreglustjóra eftir helgi, segir stóra málið ver að „þjappa lögreglunni betur saman og vinna eins og ein heild.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er þakklát fyrir traustið,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem tekur við embætti ríkislögreglustjóra á mánudag. Sigríður segir ekki tímabært að ræða hvað hún mun leggja áherslu á í starfi sínu. „En stóra málið er að þjappa lögreglunni betur saman og vinna eins og ein heild.“

Sigríður var skipuð úr hópi sjö umsækjenda. Í viðtali við mbl.is í byrjun desember sagði Sigríður það ekki tímabært að hugleiða að sækja um stöðu ríkislögreglustjóra. Umsóknarfrestur var til 10. janúar og segist Sigríður hafa skilað inn umsókn á síðasta degi. 

„Það var erfið ákvörðun að sækja um, en embætti eins og ríkislögreglustjóraembættið losnar ekki oft og þetta var eiginlega of skemmtileg áskorun til að geta staðist hana,“ segir hún.  

Vill varðveita það traust sem lögreglan hefur 

Sigríður telur að reynsla hennar sem sýslumaður á Ísafirði, lögreglustjóri á Suðurnesjum og lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu komi til með að nýtast henni vel í starfi. „Svo var ég líka aðstoðarríkislögreglustjóri um tíma og þekki innviðina vel hjá ríkislögreglustjóra.“

Sig­ríður Björk er meðal átta lög­reglu­stjóra sem lýstu yfir van­trausti á Har­ald í haust. 

Lögregluráð var stofnað í lok síðasta árs og segir Sigríður það jákvætt skref. „Þetta er framkvæmdastjórn fyrir lögregluna sem er akkúrat það sem okkur hefur vantað.“

Stóra verkefnið fram undan að mati Sigríðar er hins vegar að vinna með og bæta þjónustuna við almenning. „Og varðveita þetta mikla traust sem við höfum. Við þurfum að takast á við það sem ein heild.“

Sigríður á ekki von á að sitja jafn lengi og forveri sinn í starfi, en Haraldur sat í 22 ár, eða frá því að embættið var stofnað. „Mér mun ekki endast starfsaldur til þess, enda held ég að það sé ekki gott að vera of lengi, samfélagið hefur breyst, einu sinni þótti það fullkomlega eðlilegt að menn sætu í áratugi en nú er það ekki lengur.“

Starfsfólk almannavarna sýnt aðdáunarverða færni

Sigríður tekur við á krefjandi tímum þegar mikið mæðir á almannavörnum sökum útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. „Ég þekki almannavarnir ágætlega frá fyrri störfum þannig það er ekkert sem hræðir mig eða neitt slíkt, við höfum verið „involveruð“ í COVID frá því að hún lét á sér kræla, þannig nálgunin breytist, kemur frá annarri hlið. En auðvitað eru þetta krefjandi tímar,“ segir Sigríður, sem er ánægð með það starf sem almannavarnir hafa unnið hingað til í kórónuveirufaraldrinum, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir nú sem heimsfaraldur. „Mér finnst það hafa tekist afskaplega vel, mjög faglega gert, fólkið í Skógarhlíðinni vinnur eins og einn maður. Þau hafa sýnt aðdáunarverða færni í þessum erfiðu aðstæðum.“

Aðspurð hvort ríkislögreglustjóri verði sýnilegri í teymi almannavarna eftir að hún hefur störf segir Sigríður að það eigi eftir að koma í ljós. „Ég aðhyllist að fagfólkið eigi að fá að vera sem mest í frontinum en ég mun ræða við þau hvar ég komi að mestu gagni, það er það sem þarf að ákveða, hvort sem það verði í Skógarhlíðinni eða á Skúlagötunni, það verður að koma í ljós.“

Fyrsta verkefni Sigríðar verður að mæta á stöðufund almannavarna á mánudagsmorgun. „Það leggst ágætlega í mig, ég hef gert það sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.“ 

mbl.is