Ákvarðanir endurmetnar á hverjum degi

Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum. Alma D. Möller landlæknir …
Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum. Alma D. Möller landlæknir í bakgrunn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Takmarkanir sem stjórnvöld hafa tilkynnt á samkomum og skólahaldi fara stærstu leyti eftir tillögum sóttvarnalæknis. Í samráði við sóttvarnalækni voru breytingar þó gerðar á tímaramma og fjöldatakmörkunum nemenda í grunnskólastofum.

Heilbrigðisráðherra barst erindi frá sóttvarnalækni um samkomubann í gær. Unnið var hratt og örugglega úr tillögum sóttvarnalæknis og voru takmarkanir á samkomum og skólahaldi kynntar á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum.

„Við vissum náttúrlega að þetta væri í pípunum eins og hefur komið fram á reglulegum upplýsingafundum Almannavarna, að þetta væri ráðstöfun sem við kynnum að þurfa að grípa til. Ég fékk tillöguna formlega til mín í gær,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is að fundi loknum.

Ekki ótímabundið samkomubann

Svandís fundaði í kjölfarið með sínu ráðuneyti, með menntamálaráðherra og loks var tillaga að auglýsingu mótuð, sem farið var yfir á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Blaðamannafundur í Ráðherrabústaðnum. Þórólfur Guðnason, Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja …
Blaðamannafundur í Ráðherrabústaðnum. Þórólfur Guðnason, Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Víðir Reynisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurð hvort takmarkanirnar færu að öllu leyti eftir tillögum sóttvarnalæknis sagði Svandís að þær hefðu algerlega verið lagðar til grundvallar. „Hins vegar lagði sóttvarnalæknir til ótímabundna aðgerð og við höfum í samræmi við hann aðlagað okkar tillögu þannig að auglýsingin gildi til fjögurra vikna, með þeim fyrirvara að við getum breytt henni í millitíðinni.“

„Varðandi fjölda barna í grunnskólum sem geta verið saman í hóp var í upphaflegri tillögu sóttvarnalæknis miðað við 15 börn. Í minni auglýsingu er rætt um 20 börn og það er að höfðu samráði við sóttvarnalækni vegna skipulags skólastarfs,“ sagði Svandís.

Þá sagði Svandís að í stöðu sem þessari væru ákvarðanir endurmetnar á hverjum einasta degi.

mbl.is

Kórónuveiran

1. júní 2020 kl. 13:23
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir