Ljósmyndum og fingraförum safnað á Keflavíkurflugvelli

Í ársbyrjun 2022 taka gildi nýjar reglur innan Schengen-svæðisins þar sem fólk frá ríkjum utan þess þarf að láta í té ljósmynd og fingraför þegar það kemur inn á svæðið. Þetta eykur kröfur til starfseminnar á Keflavíkurflugvelli og gert er ráð fyrir 90 sjálfsafgreiðslukössum vegna verkefnisins.

Reglugerðin var samþykkt snemma á síðasta ári og hefur undirbúningur staðið yfir síðan þá í Leifsstöð. Lögreglan og ISAVIA eru í nánu samstarfi þar sem um umtalsverðar breytingar er að ræða fyrir komufarþega frá löndum sem standa utan samstarfsins. 

Íslendingar sem hafa ferðast til Bandaríkjanna kannast við svipað fyrirkomulag sem er á landamæragæslu þar en myndirnar og fingraförin fara í gagnabanka þjóða í Schengen-samstarfinu. Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í landamæradeild Ríkislögreglustjóra, segir fyrirkomulagið gagnast í baráttu við skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverkaógn. Upphaf þess má rekja til álags sem varð á ytri landamærum Schengen í fordæmalausum flóttamannastraumi árið 2015 og tíðra hryðjuverkaárása í Evrópu um svipað leyti. 

„Við getum til dæmis ímyndað okkur dæmi þar sem einstaklingur getur ekki framvísað vegabréfi á Íslandi, þá getur lögreglan kannað með viðeigandi búnaði hvort viðkomandi er skráður með lífkennaupplýsingar í þessu nýja kerfi,“ segir Jón Pétur en fyrirkomulagið kemur til með að hafa veruleg áhrif á framkvæmd landamæraeftirlits, útgáfu vegabréfsáritana og útgáfu ferðaheimilda hér á landi. Allar landamærastöðvar eru undir, þar með taldar hafnir og flugvellir.

Afgreiðslukassar sem teknir voru til prófunar í Leifsstöð á dögunum. …
Afgreiðslukassar sem teknir voru til prófunar í Leifsstöð á dögunum. Í byrjun árs 2019 var áætlað að 90 kassa þyrfti til að sinna eftirlitinu en aðstæður í flugrekstri hafa breyst mikið síðan þá. Ljósmynd/Aðsend

Afgreiðslutími lengist og Bretar meðtaldir

Eins og staðan er í dag eru þær vélar sem koma hingað til lands í dag frá löndum utan Schengen-svæðisins einungis frá N-Ameríku og, ef ekkert breytist í milliríkjasamningum, frá Bretlandi, að sögn Jóns Péturs.

Reglugerðin hefur í för með sér talsverðar áskoranir fyrir ISAVIA þar sem meðalafgreiðslutími farþega inn á svæðið er nú 24 sekúndur en verður um 100 sekúndur eftir breytinguna. „Við erum að nálgast þetta verkefni með því að stækka landamærin sem verða á þriðju hæð í nýrri tengibyggingu sem er í hönnun hjá okkur núna. Annars vegar erum við að skoða hvaða tækni og nýjungar eru í boði til að við þurfum minna pláss til að halda uppi hraða og skilvirkni á landamærunum,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.

Þegar hafa verið teknir til prófunar sjálfsafgreiðslukassar sem munu sinna verkefninu auk starfsfólks í mönnuðum básum. Takist vel að leysa verkefnið segir Guðmundur Daði að mögulega gæti verið um samkeppnisforskot að ræða fyrir flugvöllinn.

Áætlað er að stofnkostnaður verði í kringum 2,2 milljarðar króna en stór hluti þess fellur undir styrkjakerfi innri öryggissjóðs ESB.

mbl.is