„Það sem við þurfum að gera“

Katrín Jakobsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum.
Katrín Jakobsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menntamálaráðherra segir það mat sóttvarnalæknis að grípa þurfi til þess ráðs að loka framhalds- og háskólum landsins. Vegna fordæmalausra aðstæðna sé hins vegar ekki útilokað að komið gæti til þess að einnig þyrfti að loka grunn- og leikskólum.

„Það er mat sóttvarnalæknis vegna þess hvers eðlis veiran er að við þurfum að grípa til þessara ráðstafana núna. Við teljum og sóttvarnalæknir telur að þetta sé það sem við þurfum að gera á þessum tímapunkti,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum, þar sem kynnt voru tilmæli stjórnvalda um samkomubann og takmarkanir á skólastarfi.

Öllum framhalds- og háskólum landsins verður lokað frá og með miðnætti 15. mars og verður starfsemi grunn- og leikskóla takmörkunum háð.

Í grunnskólum þarf að tryggja að ekki skuli fleiri en 20 nemendur vera í kennslu í sömu stofu og á leikskólum skal tryggt, eins og kostur er, að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin.

Lilja segir að það sé sveitarfélaganna að útfæra framangreind tilmæli. „Ég vil hins vegar taka fram að við erum búin að setja á laggirnar stóran samráðshóp vegna veirunnar sem nær þvert á öll skólastig og er með kennaraforystunni.“

Byggir á þeim upplýsingum sem við höfum á þessum tímapunkti

„Þetta eru fordæmalausar aðstæður. Við getum ekki sagt til um það á þessum tímapunkti, þess vegna verðum við að reiða okkur á samstarf alls þess forystufólks sem er í samfélaginu í dag til þess að þetta geti gengið yfir,“ segir Lilja aðspurð hvort til þess geti komið að loka verði leik- og grunnskólum. „Allar aðgerðir miða að því að vernda þá sem minnst mega sín.“

„Ákvörðunin er tekin út frá 12. grein sóttvarnalaga út frá tillögu sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra og hún byggir á öllum þeim bestu upplýsingum sem við höfum um stöðuna á þessum tímapunkti.“

mbl.is

Kórónuveiran

26. maí 2020 kl. 12:57
2
virk
smit
1792
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir