Skólakerfið mun ekki anna öllum verkefnum

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands.
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Ljóst er að skólakerfið mun ekki anna öllum lögbundnum verkefnum á næstu vikum og nauðsynlegt verður að forgangsraða. Þetta segir Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambandsins. Framhalds- og háskólar verða lokaðir frá og með morgundeginum, en áfram verður kennt í leik- og grunnskólum þótt viðbúið sé að skólahald raskist að einhverju leyti enda verður ekki heimilt að kenna fleiri en 20 nemendum í hóp.

Ragnar segir mikilvægt að viðbrögð taki mið af staðbundnum aðstæðum á hverjum stað. Þar skipi skipti húsnæði og bekkjarstærðir máli. „Víðast hvar er hægt að skipta nemendum niður í 20 manna hópa, en þá vakna spurningar um hvort þessir hópar megi blandast annars staðar, til dæmis í frímínútum. Sum sveitarfélög munu fara þá leið að láta nemendur ekki koma á hverjum degi. Þetta er mjög flókið viðfangsefni,“ segir Ragnar. 

Samband heimila og skóla þarf að styrkja

Spurður hvort hann hefði viljað að leik- og grunnskólum hefði verið lokað, rétt eins og framhalds- og háskólum, segir hann svo ekki vera. „Ákvarðanir um hvað er fellt niður verða að vera teknar á faglegum forsendum. Það er þá í höndum sóttvarnalæknis og við verðum að hlíta því.“

Á morgun verður starfsdagur í flestum skólum, þar sem kennarar og skólastjórnendur munu hittast og fá upplýsingar um tilhögun skólastarfs næstu vikur. Aðspurður segir Ragnar að skólastjórnendur um land allt séu í óða önn að upplýsa foreldra og nemendur.

„Samband heimila og skóla þarf að vera sterkara en nokkru sinni fyrr, og það þarf að vera gagnvirkara. Skólarnir munu hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að fylgjast með velferð barna, sérstaklega ef ástandið varir í einhverja mánuði.“

mbl.is

Kórónuveiran

1. júní 2020 kl. 13:23
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir