Ásmundur í sjálfskipaðri sóttkví

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í sóttkví. Hann er ekki …
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í sóttkví. Hann er ekki með kórónuveiruna en vill gæta fyllstu varúðar. Ljósmynd/Aðsend

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í sjálfskipaðri sóttkví. Hann er því ekki viðstaddur þingfundinn sem hófst klukkan 13:30 en þar var einmitt greint frá því að einn þingmaður væri í sóttkví. 

Ásmundur og eiginkona hans tóku þá ákvörðun að fara í sóttkví á föstudag eftir að þeim bárust fregnir um að einstaklingur sem var gestkomandi á heimili þeirra á miðvikudag hefði greinst með veiruna. Sýni hafa verið tekin af hjónunum og eru þau hvorugt með veiruna, en ákváðu af öryggisástæðum að halda kyrru fyrir í um tvær vikur, þrátt fyrir að þeim hafi ekki borist símtal frá rakningateymi sóttvarnalæknis. 

„Ég var búinn að vera veikur sjálfur og fór heim af þinginu á þriðjudaginn og ekki verið í sambandi við neinn úr þingflokknum eða aðra. Ég var ansi slappur en ég er allur að koma til,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.

Hann hefur því tekið þátt í nefndafundum og öðru fundahaldi í gegnum fjarskiptabúnað síðustu daga. „Það hefur gengið ótrúlega vel og segir að við getum notað þetta mikið meira í þinginu.“ 

Setið er í öðru hverju sæti í þingsalnum vegna kórónuveirunnar.
Setið er í öðru hverju sæti í þingsalnum vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin þjóð að standa sig betur en Ísland

Ásmundur fylgist með þingfundi dagsins og er ánægður með þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar á störfum þingsins vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og samkomubannsins sem tók gildi í gær. „Ég held að þetta sé bara mjög gott, að við séum öll að fara eftir ráðleggingum.“ 

Þá er Ásmundur gríðarlega sáttur við störf almannavarna. „Ég held að það sé engin þjóð í heiminum að gera þetta betur en við. Stærstu stjörnurnar í samfélaginu eru fólkið sem hefur verið að þrengja að okkur og gera lífið erfiðara en við treystum þeim svo vel að við lítum öll upp til þeirra.“

mbl.is

Kórónuveiran

25. maí 2020 kl. 13:03
3
virk
smit
1791
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir