Fást við fáæma aðstæður í annað sinn

Frá Hvammstanga. Íbúar í Húnaþingi vestra eru um 1.200 og …
Frá Hvammstanga. Íbúar í Húnaþingi vestra eru um 1.200 og um 20% þeirra eru í sóttkví. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þeir íbúar sem ég hef heyrt í taka þessu af æðruleysi,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, þar sem 130 heimili bæði í þéttbýli og í sveitum eru í sóttkví eftir að íbúi í sveitarfélaginu greindist með kórónuveiruna. Ekki er vitað hvernig sá einstaklingur smitaðist.  

Alls eru 230 einstaklingar í sóttkví í sveitarfélaginu sem telur 1.208 manns. Þetta hefur óneitanlega mikil áhrif á alla starfsemi sveitarfélagsins og öll þjónusta er skert. Grunskólinn er lokaður og allir nemendur og starfsmenn sendir í sóttkví. Kaupfélagið er opið styttra svo dæmi séu tekin. Þar sem allir nemendur voru sendir í sóttkví kallar það á að foreldrar þurfa að sinna börnum sínum og geta þar af leiðandi ekki sinnt hefðbundinni vinnu á meðan. 

Biðla til fólks að kaupa í matinn fyrir vini og ættingja

„Við reynum að halda úti órofnum rekstri á ákveðnum þáttum. Við höfum reynt að stúka fólk af og einangra þá sem við megum ekki missa úr vinnu því við þurfum að halda sveitarfélaginu gangandi,“ segir Ragnheiður. Allir leggjast á eitt að láta hlutina ganga upp í sveitafélaginu, til að mynda var ákveðið að lána starfsmann með heilbrigðismenntun sem vinnur alla jafna í Ráðhúsinu til heilbrigðisstofnunarinnar. 

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjálfboðaliðar Rauða krossins ætla að koma og aðstoða þau heimili sem þurfa á því að halda. Björgunarsveitir eru einnig boðnar og búnar að leggja hönd á plóg, að sögn Ragnheiðar.  

„Við reynum líka að höfða til vina og vandamanna og samfélagslegra þátttöku í þessari aðstöðu. Við hvetjum fólk til að létta á kaupfélaginu og pantanadeildinni þar með því að versla inn fyrir vini og ættingja,“ segir Ragnheiður. Hún tekur fram að hún hafi fengið mjög góð viðbrögð.

„Hér er samheldið samfélag“

„Fólk er mjög hjálpsamt og hér er samheldið samfélag,“ segir Ragnheiður. Það hafi komið bersýnilega í ljós í desember þegar óveður gekk yfir sveitarfélagið og lék íbúa grátt. Rafmagnið fór af og búfé drapst í tugum þegar kafaldsbyl gerði í þeirri fyrstu rauðu  veðurviðvörun sem gefin var út fyrir þetta landsvæði.   

„Þetta er í annað skipti í vetur sem við tökumst á við fádæma aðstæður,“ segir Ragnheiður. Hún líkir aðstæðunum við leikrit þar sem allir leika af fingrum fram því ekkert er handritið að þessu sinni. Hún er bjartsýn á að þetta leysist allt saman því eins og staðan er núna þá ráða þau enn við aðstæður. 

Í desember fennti allt í kaf í sveitarfélaginu.
Í desember fennti allt í kaf í sveitarfélaginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Kórónuveiran

1. júní 2020 kl. 13:23
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir