Við hverja mega börnin leika?

Víðir Reynisson hjá almannavörnum.
Víðir Reynisson hjá almannavörnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börn sem eru aðskilin í skólastarfi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar eiga líka að vera aðskilin utan skóla, til dæmis við leik og í íþróttastarfi. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Víðis Reynissonar hjá almannavörnum á upplýsingafundi í dag.

Á fundinum var spurt til hvaða viðmiða ætti að horfa þegar kemur að börnum sem hafa verið aðskilin í skólastarfi og hvort þau mættu leika sér með hvaða öðru barni sem er. Svaraði Víðir því til að nánari upplýsinga væri að vænta á síðunni covid.is, en í grunninn væri ekki æskilegt að börn sem væru aðskilin í skóla væru svo að leika sér saman utan skóla.

Þá sagði hann að þessu hefði jafnframt verið beint til íþróttafélaga, en það þýðir í raun að börn sem eru aðskilin í skólastarfi eigi ekki að stunda íþróttir saman heldur. Sagði Víðir ljóst að þetta myndi takmarka íþróttastarf íþróttafélaganna enn frekar.

Víðir nefndi svo að þetta ætti ekki síður við fullorðna og vinnustaði. Þannig hefðu margir vinnustaðir þegar skipt starfsfólki upp í hópa. Sagði hann að það væri ekki æskilegt að fólk sem hefði verið aðskilið í vinnu til að reyna að minnka útbreiðsluna væri svo að koma saman eftir vinnu.

Í lok fundarins sagði Víðir að nú væri komið að helgi og að á undanförnum fundum hefði ítrekað verið minnt á að fólk þyrfti að vera dulegt að halda áfram að skemmta sér og njóta lífsins. Hann sagði að núna væru að koma upp alls konar tækifæri og nefndi sérstaklega þá listamenn sem væru að bjóða upp á sýningar og viðburði í gegnum netið. Þá hvatti hann fólk til að vera saman í minni hópum, en að fólk ætti áfram að passa upp á að njóta lífsins, en kannski með nýjum hætti.

mbl.is