Fundu útigengin lömb á Tröllaskaga eftir fimbulvetur

Féð fannst innst í Skíðadal, meira en 10 kílómetra inn …
Féð fannst innst í Skíðadal, meira en 10 kílómetra inn af innsta bæ í dalnum. Ljósmynd/Þór Vilhjálmsson

Veturinn á Norðurlandi hefur verið einn sá versti í manna minnum og gengið hefur á með umhleypingaveðri þar sem hver lægðin rekur aðra. Þá þarf ekki að minnast á aftakaveðrið mikla í desember þegar rafmagn fór víða af í nokkra daga og innviðir löskuðust. Þrátt fyrir að allar utanaðkomandi aðstæður væru þeim í óhag tókst þó tveimur lömbum, sem skiluðu sér ekki af fjalli í haust, hið ótrúlega. Þau lifðu af og það sem meira er, líklega mega þau þakka veðurhamnum að hluta til fyrir að hafa getað haldið í sér lífi.

Jón Þór­ar­ins­son býr ásamt fjöl­skyldu sinni á bænum Hnjúki innst í Skíðadal. Fyrr í vikunni fékk hann ásamt fleirum í sveitinni ábendingu frá vélsleðamönnum, sem höfðu verið á leið upp úr Skíðadal á Tungnahryggsjökul, um að sést hefði til fjár innst í Skíðadal. Hópur manna var strax sendur af stað á fimm sleðum auk þess sem tekinn var með dráttarsleði til að geta komið fénu til baka.

Fénu var komið fyrir á dráttarvagni og þannig skutlað af …
Fénu var komið fyrir á dráttarvagni og þannig skutlað af fjalli niður að bæ. Ljósmynd/Þór Vilhjálmsson

„Þetta er alveg með ólíkindum“

Þeir þurftu að bruna um 10 kílómetra inn frá innsta bæ dalsins, eða um 32 kílómetra inn af Dalvík, til að komast að fénu. „Þetta er alveg með ólíkindum. Að finna útigengið fé eftir þennan harða vetur sem hefur verið,“ segir Jón í samtali við mbl.is. „Við ætluðum ekki að trúa þessu.“

Féð fannst inn undir Almenningsfjalli, en það var í um 300-400 metra hæð. Segir Jón að það hafi í fundist nálægt hefðbundinni vélsleðaleið upp á Tungnahryggsjökul.

Jón Þórarinsson, bóndi á Hnjúki í Skíðadal.
Jón Þórarinsson, bóndi á Hnjúki í Skíðadal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert undirlendi í dalnum

Í þessum inndal af Skíðadal er að sögn Jóns í raun ekkert undirlendi nema bara áin og svo nokkrir metra hvoru megin til hliðar. Þá er um mjög þekkt snjóflóðasvæði að ræða þar sem féð var og þar með enn ótrúlegra að það hafi verið á lífi.

Veturinn hefur verið bændum á svæðinu mjög erfiður og minnist Jón þess að þegar áhlaupið hafi orðið 21. til 24. október hafi kindur víða verið á úthaga. Grönduðust nokkrar kindur þá í fönn að hans sögn. Þá hefur verið mjög rysjótt veður í allan vetur fyrir utan um hálfs mánaðar tímabil í nóvember. Jón segir að þá hafi verið farið hvern dag að leita að fé sem ekki hafi skilað sér heim, en með litlum árangri. Aðeins hafi fundist fé sem hafi grafist í fönn.

Ljósmynd/Þór Vilhjálmsson

Höfðu lagt töluvert af en alls ekki slöpp

Það hafi því komið öllum á óvart að svona seint liðið á veturinn hafi þessi tvö lömb komið fram á lífi. Það sem hafi komið skemmtilega á óvart var ástandið á lömbunum, en Jón segir að þau hafi alls ekki verið slöpp. „Það er með ólíkindum ástandið á þeim miðað við aðstæður. Þær voru jú farnar að leggja töluvert af, en þær verða fljótar að ná sér,“ segir hann.

Lömbin eru frá nágrannabæ Jóns, Grund í Svarfaðardal, en þau voru á Skíðadalsafrétti. Jón segir að mjög auðvelt hafi verið að keyra að þeim, enda hafi færið verið slæmt fyrir féð til að hlaupa í burtu. Fénu var komið fyrir á dráttarvögnunum og svo var farið til baka.

Ljósmynd/Þór Vilhjálmsson

Veðurhamurinn hélt líklegast í þeim lífi

Spurður út í það hvernig féð gat lifað af við þessar aðstæður segir Jón að þó að tíðin hafi verið slæm og veðurhamurinn grimmur hafi slíkt þrátt fyrir allt líklega hjálpað fénu að lifa af. Fyrst nefnir hann að í þessu rysjótta veðri, þar sem reglulega blotnaði niðri í sveit og gerði fönnina þunga og þétta, sé líklegt að ekki hafi blotnað svona hátt uppi og innarlega. Þá segir hann að akkúrat á þessu svæði sem féð fannst hafi verið nokkrar hryggrendur sem rifið hafi af. Það er að segja, snjóinn festi ekki og þar með komst féð niður á smá gras eða jurtir til að japla á. Féð hafi þannig lifað af með því að halda sig á vindasamasta svæðinu þar sem það komst í æti.

Hér má sjá um það bil hvar féð fannst. Hægt …
Hér má sjá um það bil hvar féð fannst. Hægt er að smella á kortið og þysja inn og út og færa kortið til hliðar til að átta sig betur á staðsetningunni. Kort/Map.is
mbl.is