„Það munu allar þjóðir fara að hugsa svona“

Sigurður Ingi Jóhannsson segir að hagkerfi heimsins muni breytast í …
Sigurður Ingi Jóhannsson segir að hagkerfi heimsins muni breytast í kjölfarið á þeim aðgerðum sem farið var í í tengslum við útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstæðurnar sem upp eru komnar í tengslum við útbreiðslu kórónuveirunnar munu verða til þess að ríki heimsins munu ekki leita inn í eins hagkerfi á ný og áður hefur verið. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Segir hann að Ísland þurfi í framtíðinni að vera betur í stakk búið til að takast á við það þegar aðrar þjóðir loki skyndilega á samgöngur og að vera meira sjálfbjarga með fjölbreyttari atvinnuvegum.

Í dag kynnti ríkisstjórnin aðgerðir sínar til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum af útbreiðslu kórónuveirunnar. Var þar kynntur pakki, en umfang hans er um 230 milljarðar, eða 7,8% af landsframleiðslu.

„Svona atburðir munu alltaf verða til þess að hér verði breytingar“

Í ræðu sinni á kynningarfundinum sagði Sigurður að ekki yrði leitað inn í eins hagkerfi á ný eftir að þetta áfall væri yfirstaðið. Spurður út í þessi ummæli segir Sigurður að búast megi við umtalsverðum breytinum á komandi tímum. „Svona atburðir munu alltaf verða til þess að hér verði breytingar. Sjáum aðrar þjóðir, jafnvel í þéttu alþjóðlegu samstarfi, sem hafa gripið til mjög einhliða aðgerða um að loka sig af. Það mun hafa þau áhrif að í framhaldinu munu þjóðir hugsa að þær þurfi að vera meira sjálfbjarga, sérstaklega á sviðum eins og matvælaframleiðslu. Þetta á ekki síst við um eyju eins og Ísland.“

Spurður hvort þetta þýði skipbrot alþjóðastefnunnar segist Sigurður þó ekki vilja taka svo djúpt í árinni. „Ég vil ekki nota orðið skipbrot en það munu allir setja upp einhvers konar varúðarventil. Þetta getur gerst aftur og hvernig ætla þeir þá að vera undirbúnir? Eitt af því að vera undirbúinn er að framleiða meira í sínu eigin landi.“

Þurfum að vera viðbúin skyndilegum ákvörðunum annarra þjóða

En væri raunhæft fyrir fámennt land eins og Ísland að taka slíkt skref? „Við þurfum að vera með fjölbreyttara hagkerfi. Þurfum að passa okkur á að ein atvinnugrein verði ekki allsráðandi, því við munum alltaf lifa á því að heimsviðskipti séu forsenda þess að við séum til. Hvort sem það er ferðaþjónusta, sjávarútvegur eða orkufrekur iðnaður,“ segir Sigurður. Bætir hann við að nú verði að vinna að því að ýta undir að stækka fleiri atvinnugreinar. „Þar er hugvitið aðalatriðið,“ bætir hann við.

„Um leið þurfum við að vera betur í stakk búin þegar einhverjar aðrar þjóðir skyndilega og án viðvörunar loka á öll samskipti. Þá þurfum við að vera með grunnþarfirnar í lagi, sem er matur, lyf, birgðastaða á þeim hlutum sem við þurfum að eiga samkvæmt þjóðaröryggisstefnu,“ segir Sigurður. „Þetta verður afleiðing þessa faraldurs. Það munu allar þjóðir fara að hugsa svona og það hefur áhrif á öll hagkerfi heims.“

mbl.is

Kórónuveiran

25. maí 2020 kl. 13:03
3
hafa
smitast
1791
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir