„Aldrei búinn undir svona tíðindi“

Birgir heitinn ásamt öðrum sona sinna, Gabriel Hernes Hjelm, í …
Birgir heitinn ásamt öðrum sona sinna, Gabriel Hernes Hjelm, í fríi í Grikklandi. Barnsmóðir Birgis er hin norska Catherine Hernes Melhus. Ljósmynd/Aðsend

„Maður er aldrei búinn undir svona tíðindi skal ég segja þér. Ég fékk þetta símtal 10. mars og auðvitað fengum við hjónin bara áfall. Þetta gerðist þarna við Orkuna, skammt frá Smáralind í Kópavogi.“ Þetta segir Svanberg Hjelm, íslenskur vörubifreiðarstjóri á sextugsaldri í Sandnes í Noregi, um þau hörmulegu tíðindi, sem honum bárust símleiðis í þarsíðustu viku, að sonur hans og stjúpsonur konu hans, Birgir Ingvar Hjelm, lægi milli heims og helju á gjörgæsludeild Landspítalans eftir alvarlegt umferðarslys í Kópavogi.

„Sonur minn, Birgir Ingvar Hjelm, liggur mjög svo þungt haldinn á gjörgæslu eftir bílslys og berst fyrir hverjum andadrætti sínum með aðstoð öndunarvélar, hann, samkvæmt sérfræðingum, á aldrei afturkvæmt og það er einfaldlega verið að bíða eftir að líkaminn slökkvi endanlega á kerfinu, hann fékk hroðalega höfuðáverka og öll starfsemi þar uppi er slokknuð,“ skrifaði Svanberg á Facebook-síðu sína 12. mars, nokkrum dögum áður en Birgir var úrskurðaður látinn, sunnudaginn 15. mars.

Fjölskyldan sameinast á Íslandi

Svanberg og kona hans, stjúpmóðir Birgis heitins, Sæunn Anna Sæmundsdóttir, fluttu til Noregs árið 2010 og hafa starfað þar síðan, Sæunn vinnur á leikskóla í Sola, nágrannasveitarfélagi Sandnes og Stavanger í Rogaland á vesturströnd Noregs, en Svanberg ekur vörubifreið milli Sandnes og Kristiansand. „Þetta er bjór og póstur sem ég er að keyra með,“ segir Svanberg sem einnig starfaði í aukavinnu við dyravörslu í Stavanger og áður á Íslandi. „Maður er bara orðinn of gamall fyrir dyravörsluna núna, ég er 52 ára, þetta var frábær tími en nú er nóg komið,“ segir Svanberg sem var einnig í akstri á Íslandi, ók þar vörubílum og leigubíl auk dyravarðarstarfa.

Birgir heitinn var einnig dyravörður hluta síns lífs en alls varð Svanberg og Sæunni átta barna auðið, þó ekki allra sameiginlega, og sameinast fjölskyldan í kvöld á Íslandi yfir kvöldmáltíð í minningu Birgis.

Birgir á veitingastað í Stavanger á góðri stundu 2016.
Birgir á veitingastað í Stavanger á góðri stundu 2016. Ljósmynd/Aðsend

„Sú sem kemur lengst að býr í Grikklandi, dóttir okkar, og við settum okkur náttúrulega nánast á hausinn við að borga flugmiðana fyrir okkur og börnin bara héðan frá Noregi, þeir kostuðu 30.000 norskar krónur,“ segir Svanberg, en sú upphæð nemur tæpum 400.000 íslenskum krónum.

„Fólk hefur svo bara lagst á eitt og hjálpast að,“ segir Svanberg, sem nú glímir við andlát í fjölskyldunni ofan á annað sem heimsbyggðinni er þyngt með þessi dægrin, „við og börnin erum í gistingu hingað og þangað á Íslandi, ættingjar okkar hjálpa okkur bara eins og gengur og fyrir það erum við ákaflega þakklát.“

Vill nefna starfsfólk gjörgæsludeildar LSH

Svanberg og Sæunn eru í veikindafríi frá vinnu í Noregi vegna andláts Birgis. „Við þurftum náttúrulega bara að rjúka frá öllu í Noregi sama dag, starfsfólkið á gjörgæsludeildinni gerði allt sem í þess valdi stóð til að bjarga honum, en það var bara engu að bjarga. Honum var haldið gangandi í öndunarvél og mér var bara sagt það í þessu fyrsta símtali að ég skyldi drífa mig til Íslands, hann kæmi ekki til að lifa sólarhringinn,“ segir Svanberg frá.

Fjölskyldan sameinuð á Íslandi í kvöld í minningu horfins sonar, …
Fjölskyldan sameinuð á Íslandi í kvöld í minningu horfins sonar, Svanberg, faðir Birgis, og stjúpmóðirin Sæunn efst í tröppunum, systkinin sjö eru Jökull Óðinn, Davíð Gunnar, Sæþór Aron, Guðbjörn Eyþór, Erla Ósk, Svanberg og Ármann Freyr. Ljósmynd/Aðsend

Birgir lifði þó sólarhringinn og gott betur, hann lést sunnudaginn fimm dögum eftir slysið, 15. mars. Hvernig var sú upplifun að standa við dánarbeð eins átta barna sinna? „Hreint út sagt skelfileg,“ svarar Svanberg, „maður er aldrei eins ósjálfbjarga og akkúrat á þessari stundu, en okkur langar líka að minnast á starfsfólkið á gjörgæsludeildinni [á Landspítalanum], hreint ótrúlegt og án þess góða fólks hefði þetta aldrei gengið svona vel eins og hægt var miðað við aðstæður,“ segir faðirinn um þakklæti þeirra Sæunnar og systkinahópsins í garð starfsfólks Landspítalans. Móðir Birgis er Kristín Hulda Hartmannsdóttir og bjó Birgir um tíma hjá henni og sambýlismanni hennar, Bjarna Þór Stefánssyni, í Borgarnesi. Kristín Eyþórsdóttir, móðuramma Birgis, var honum einnig ákaflega kær.

Birgir ásamt Gabriel syni þeirra Cathrine Melhus og Anders stjúpsyni …
Birgir ásamt Gabriel syni þeirra Cathrine Melhus og Anders stjúpsyni sínum í Bryne í Rogaland árið 2014. Birgir gekk Anders í föður stað. Ljósmynd/Aðsend

Svanberg og Sæunn standa nú, ásamt fleirum í fjölskyldunni, frammi fyrir útför Birgis á fimmtudaginn, 26. mars, og eru, rétt eins og stór hluti heimsbyggðarinnar um þessar mundir, hreinlega skítblönk. Þau hafa því hleypt af stokkunum söfnun fyrir útfararkostnaði á Íslandi og heimför þeirra til Noregs. Þeim, sem leggja vilja hjónunum lið á ögurstundu í lífi þeirra, er bent á reikning númer 319-26-7009 á kennitölu 030168-3809.

mbl.is