Líkast sem alt líf væri að fjara út

Fullveldi Íslands fagnað 1. desember 1918, í skugga spænsku veikinnar …
Fullveldi Íslands fagnað 1. desember 1918, í skugga spænsku veikinnar sem gert hafði mikinn usla vikurnar á undan.

Talið er að tveir þriðju hlutar Reykvíkinga hafi verið rúmliggjandi vegna spænsku veikinnar þegar mest var í nóvember 1918. Samfélagið lamaðist og dagblöð hættu að koma út um tíma. 

„Dagblöðin geta ekki komið út næstu daga, vegna veikinda starfsmanna. Merkustu tíðindi verður reynt að birta á fregnmiðum víðs vegar um bæinn. Kaupendur blaðanna geta látið vitja fregnmiða á afgreiðslum blaðanna, og verða þeir enn fremur til sölu á götunum.“

Svohljóðandi tilkynning birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 6. nóvember 1918 og undir hana skrifuðu forsvarsmenn Morgunblaðsins, Frétta og Vísis.

Spænska veikin, sem svo var kölluð, hafði þá stungið sér niður af fullum þunga í Reykjavík. Veikin átti upptök sín í Bandaríkjunum en barst til Evrópu með bandarískum hermönnum. Veikin lék Spánverja á hinn bóginn grátt vorið 1918 og af því höfðu borist fréttir. Þar um slóðir töluðu menn á hinn bóginn um „frönsku flensuna“.

Af skrifum Guðmundar Björnssonar landlæknis í Morgunblaðið í byrjun nóvember 1918 má þó ætla að honum hafi þótt heitið akademískt. „Eg býst ekki við að hún Katla gamla tæki miklum stakkaskiftum þó farið væri að kalla hana þýzku Böggu eða dönsku Siggu, – víst er um það, að Influenzan er nú sjálfri sér lík, er influenza, þó farið sé að kalla hana spönsku pestina.“

Útgáfuhlé varði í tíu daga en þegar Morgunblaðið kom loksins út á ný, sunnudaginn 17. nóvember, var forsíða blaðsins og raunar blaðið allt undirlagt af fréttum af veikinni.

Hver hefði spáð því?

Í úttekt blaðsins sagði meðal annars: „Hver hefði spáð því, að svo mikil tíðindi gerðist hér á meðal vor, að menn mintust naumast á vopnahléið, byltinguna þýzku og landflótta þess þjóðhöfðingja, sem mest hefir verið um rætt síðustu árin, þeirra vegna? Hver hefði spáð því, að svo viðburðaríkir dagar biðu vor, að vér gleymdum Kötlu, spúandi eldi og eimyrju yfir nálægar sveitir? Nú nefnir enginn Reykvíkingur Kötlu, fremur en hún hefði aldrei verið til. Og engir fánar svifu að hún á þriðjudaginn var, til þess að fagna friðnum. Í stað þess drúptu fánar á miðri stöng, sem sýnilegt tákn drepsóttarinnar, sem dauðinn hefir fengið að vopni, í okkar afskekta landi.“

Og enn fremur: „Á miðvikudaginn annan en var má telja að þriðjungur bæjarbúa hafi verið orðinn veikur. En næstu dagana breiddist veikin svo mjög út, að um síðustu helgi mun ýkjulaust mega telja, að tæpur þriðjungur bæjarbúa hafi verið á uppréttum fótum. Þá dagana var því líkast sem alt líf væri að fjara út í bænum. Göturnar voru að kalla mátti auðar af fólki, og ætið voru það sömu andlitin sem sáust, mest eldra fólk. Í byrjun þessarar viku fóru að sjást ný andlit, sjúklingar, sem gengnir voru úr greipum sóttarinnar. En um sama leyti fór hinn hryggilegi förunautur Inflúenzunnar, lungnabólgan, að færast í aukana, og með henni fjölgaði mannslátunum.“

Nánar er fjallað um spænsku veikina á Íslandi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Áskrifendur geta lesið greinina í heild sinni á mbl.is hér.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »