Æfingahjólin runnu út á einni mínútu

Æfingahjólin eru svokölluð IC8 hjól, en með þeim er hægt …
Æfingahjólin eru svokölluð IC8 hjól, en með þeim er hægt að sjá nákvæmlega æfingaálagið og skrá það niður í forrit eins og Strava sem eru vinsæl til að halda utan um æfingar hjólreiðafólks og hlaupara. Ljósmynd/Hákon Hrafn

Forsvarsfólk hjólreiðadeildar Breiðabliks og Sporthússins dó ekki ráðalaus þegar tilkynnt var um hertari takmarkanir á samkomubanninu í gær. Leiða takmarkanirnar meðal annars til þess að loka á öllum líkamsræktarstöðvum og sundlaugum. Samtals 34 hjól hafa verið leigð út til viðskiptavina stöðvarinnar, en með því færa þau hreyfinguna heim meðan bannið stendur yfir.

Hákon Hrafn Sigurðsson, yfirþjálfari hjá hjólreiðadeildinni, segir í samtali við mbl.is að þegar ljóst varð um takmarkanirnar í gær hafi verið hoppað til og áhugi þeirra sem æfðu hjólreiðar athugaður á að fá hjól heim til sín. Sporthúsið, hjólreiðadeildin og þríþrautadeildin eiga hjólin í sameiningu og segir hann viðbrögð Sporthússins hafa verið mjög jákvæð og að allra leiða sé leitað til að koma sem best til móts við fólk á þessum sérstöku tímum.

Þríþrautadeildin hafði þegar ráðstafað sínum hjólum en skráning fyrir hin 25 hjólin hófst klukkan hálf eitt í dag. Hákon segir að öll hjólin hafi verið uppbókuð á einni mínútu. „Fólk ætlar áfram að hreyfa sig,“ segir Hákon hress í bragði, en í vetur og í fyrra hefur hjólreiðadeildin haldið úti vinsælum hjólaæfingum í Sporthúsinu, auk þess sem hjólað er úti á sumrin.

Hákon Hrafn Sigurðsson er yfirþjálfari hjólreiðadeildar Breiðabliks auk þess sem …
Hákon Hrafn Sigurðsson er yfirþjálfari hjólreiðadeildar Breiðabliks auk þess sem hann er einn öflugasti þríþrautamaður þjóðarinnar. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Ljóst er að ástundendur hjólreiða ætla ekki að láta veirufaraldurinn koma í veg fyrir að vera í formi og segir Hákon að síðustu daga hafi nær allir „trainerar“ selst upp á landinu og því sé líklega vinsælt að fá æfingahjólin sjálf heim til sín meðan fólk sé í sóttkví.

Um er að ræða svokölluð IC8 æfingahjól, en með þeim er hægt að sjá nákvæmlega æfingaálagið í wöttum og skrá það niður, auk þess að hægt er að tengja þau beint við hjólatölvuleiki eins og Zwift sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár, ekki síst nú þegar faraldurinn gengur yfir.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman