Nauðgaði sofandi kærustu sinni

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun og brot gegn blygðunarsemi. Maðurinn er sakfelldur fyrir að hafa nauðgað fyrrverandi kærustu sinni þegar hún var sofandi.

Maðurinn gekkst við því að hafa klætt fyrrverandi kærustu sína úr nærbuxum, fjarlægt túrtappa og nauðgað henni þar sem hún svaf. Auk þess játaði hann að hafa fróað sér yfir höfði konunnar þar sem hún svaf en maðurinn tók athæfið upp.

Hann neitaði ákæru um aðra nauðgun og annað blygðunarsemisbrot og var sýknaður af þeim ákæruliðum.

Fyrir dómi kom fram að fólkið var í nánu sambandi frá árslokum 2016 til marsloka 2017. 

Af gögnum og framburði vitna bendir allt til þess að konan hafi átt erfitt andlega eftir brotin og kom það fram í skýrslu hennar fyrir dómi. Sama á við um vitnaskýrslu móður, föður og systur hennar.

Við ákvörðun refsingar horfði dómari til þess að um var að ræða alvarleg brot sem beindust gegn konunni í aðstæðum þar sem hún átti að vera örugg og því um mikinn trúnaðarbrest að ræða. Brotin hafi auk þess verið endurtekin.

Hins vegar var það manninum til refsilækkunar að hefur ekki áður gerst sekur við refsilög og játaði tvo ákæruliði skýlaust. Maðurinn var því dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna til tveggja ára. Hann er auk þess dæmdur til að greiða konunni tvær milljónir króna í bætur.

mbl.is