Starfsmenn íþróttafélaga eiga rétt á hlutagreiðslu

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/Ungmennafélag Íslands

Starfsmenn og verktakar íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka eiga rétt til hlutagreiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda, samkvæmt frumvarpi sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lagði fram í síðustu viku og var samþykkt á föstudag.

Miðað við það geta starfsmenn íþróttafélaga, þjálfarar og aðrir á launaskrá viðkomandi félags sótt um hlutagreiðslur komi til skerts starfshlutfalls. Gert er ráð fyrir að þær geti numið frá 20-75% skerðingu á móti starfshlutfalli starfsmanna. Komi til skerðingar þarf starfsmaður að semja við yfirmann sinn og sækja að því loknu um greiðslur vegna minna starfshlutfalls.

Frumvarpið í stuttu máli:

  • Hlutagreiðslur greiddar samhliða allt að 75% minna starfshlutfalli.
  • Laun frá vinnuveitanda og greiðslu bóta samanlagt geta aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.
  • Miðað er við meðaltal launa síðustu þriggja mánaða áður en launamaður missti starf sitt að hluta.
  • Þak á samanlagðar bætur og laun nema 700.000 krónum.
  • Einstaklingur með 400.000 krónur í launa eða minna á mánuði getur fengið greitt 100% launa sinna.
  • Gildistími frumvarpsins er frá 15. mars 2020 til 31. maí 2020.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

mbl.is