Bangsar breiða úr sér í veldisvexti

Vakur Hugason 3 ára kannaði aðstæður á Sólvallagötu í dag, …
Vakur Hugason 3 ára kannaði aðstæður á Sólvallagötu í dag, og móðir hans Júlía Runólfsdóttir segir á Facebook að hún sé óviss um hvor hafi skemmt sér betur, hann eða hún. Ljósmynd/Júlía Runólfsdóttir

Á sama tíma og öllu tómlegra er um að litast á götum gamla Vesturbæjarins en flestir vilja venjast, hafa hýbýli þar stór og smá mörg fengið óvænta andlitslyftingu: Bangsar hafa stillt sér upp í allt að þriðja hverjum glugga í hverfinu, samkvæmt niðurstöðum óformlegrar könnunar íbúa sem taldi þá í gönguferð dagsins.

Vesturbærinn lætur sitt alls ekki eftir liggja í bangsaátakinu.
Vesturbærinn lætur sitt alls ekki eftir liggja í bangsaátakinu. Ljósmynd/Hilmar Þór

Þessi íbúi er Guðmundur Felixson sviðshöfundur, sem taldi 95 bangsa í hálftíma löngum göngutúr í nágrenni við heimili sitt við Seljaveg í dag. Fjöldinn kom honum í opna skjöldu. „Þetta var mjög skemmtilegt og sýnir hvað þarf lítið til að hafa ofan af fyrir manni í samkomubanninu. Eða ég átta mig samt í rauninni ekki á því hvort þetta sé skemmtilegt í alvörunni eða hvort mér leiðist bara svona ógeðslega mikið í þessum aðstæðum að þetta sé orðið það skemmtilegasta sem maður gerir, að telja bangsa“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. Það er þó auðvitað sama hvaðan gott kemur.

Bangsar prýða nú marga glugga í Vesturbænum, ekki síst á …
Bangsar prýða nú marga glugga í Vesturbænum, ekki síst á Holtsgötu. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur er ekki í eiginlegri sóttkví en kveðst vera kominn í hálfsjálfskipaða sóttkví ásamt kærustu sinni, Þuríði Blæ Jóhannsdóttur. Þau eiga von á barni í júní og hafa sig því hæg í faraldrinum. Þau fara þó í daglegan göngutúr og taka öllum verkefnum fagnandi, eins og því að telja bangsa um leið og þau ganga. 

Guðmundur Felixson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir eru í „hálfsjálfskipaðri sóttkví“ …
Guðmundur Felixson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir eru í „hálfsjálfskipaðri sóttkví“ þessa dagana og eiga von á barni í júní. mbl.is/Stella Andrea

Önnur athugun sem þau gerðu í dag var sú að Holtsgatan í Vesturbænum virðist leiðandi í bangsaátakinu góða. „Það er rosa mikið að gerast þar,“ lýsir Guðmundur. Nú er að vita hvort aðrar götur taki sig ekki upp og bjóði Holtsgötu birginn.

Íslendingar hófu að stilla leikfangabjörnum út í glugga að erlendri fyrirmynd, en þar var blásið til átaksins með það fyrir augum að ungir sem aldnir hefðu talningu þeirra sér til dægrastyttingar í löngum gönguferðum. Það er ekki nema í þessari viku sem fyrstu menn fóru að hvetja til athæfisins. Á örfáum dögum eru þeir þó orðnir eins margir og Guðmundur segir og verður sú öra útbreiðsla vart skilin öðruvísi en að böngsunum fjölgi nú í veldisvexti.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman