5% atvinnuleysi í febrúar

Hagstofa Íslands.
Hagstofa Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi atvinnulausra í febrúar var um 10.300 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar eða 5% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 80,4% á meðan árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi var 77,5%.

Árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis síðustu 6 mánaða hefur stigið lítillega, eða úr 3,7% í september í 4,0% í febrúar. Á sama tíma fór leitni hlutfalls starfandi úr 77,8% í 77,6%. Atvinnuþátttaka fór hins vegar úr 80,8% í 81,1% á sama tímabili.

Samkvæmt óleiðréttri mælingu er áætlað að um 203.100 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í febrúar 2020. Það jafngildir 78,2% (±2,6) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að um 192.900 (±5.100) manns hafi verið starfandi, en 10.200 (±3.000) án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var þannig rétt um 74,3% (±2,7) á meðan óleiðrétt atvinnuleysi mældist 5,0% (±1,5).

Þegar hlutfall atvinnulausra er borið saman við febrúar 2019 má sjá að atvinnuleysi hefur aukist um 1,8 prósentustig og hlutfall starfandi lækkað yfir sama tímabil um 2,1 prósentustig.

mbl.is