Sveitarfélögum hefur fækkað um 64%

Fjöldi sveitarfélaga á Íslandi hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og sama er að segja um íbúafjölda þeirra. Sveitarfélögin voru þannig 203 talsins árið 1910 en voru 72 í lok árs 2019 og hafði þannig fækkað um rúm 64%. Þá hefur meðalfjöldi íbúa sveitarfélaganna á sama tíma tólffaldast.

Hagstofa Íslands hefur tekið saman í fyrsta sinn skrá um sveitarfélög og íbúatölu þeirra samkvæmt gildandi afmörkum þeirra árlega á tímabilinu 1910-2019. 

Sem fyrr segir voru árið 1910 203 sveitarfélög í landinu með rúmlega 85.000 íbúa. Á næstu áratugum þar á eftir fjölgaði sveitarfélögum í landinu þannig að fjöldi þeirra varð mestur á árunum 1948-1952, alls 229 sveitarfélög. Í rúma þrjá áratugi eftir það hélst fjöldi sveitarfélaga tiltölulega stöðugur, fækkaði einungis um sjö fram til ársins 1986 en þá voru sveitarfélögin alls 222.

„Landslagið gjörbreyttist á næstu tveimur áratugum í miklu samrunaferli með þeim afleiðingum að árið 2006 var fjöldi sveitarfélaga kominn niður í 79. Mestu máli skipti í þeim breytingum að mörg mikilvæg þjónustuverkefni, sem áður voru í verkahring ríkisins, færðust yfir til sveitarfélaganna en það þýddi um leið að krafan um öflugri sveitarfélög snerist mikið um stækkun þeirra sem þjónustu- og stjórnsýslueininga. Eftir þessa samrunahrinu tók við frekar hæg samrunaþróun og voru sveitarfélögin 72 í árslok 2019 líkt og áður hefur komið fram.

Ef farið er lengra aftur í tímann voru sveitarfélögin samkvæmt manntalinu 1703, fyrsta manntali sem gert var á Íslandi, alls 163. Þessi fjöldi sveitarfélaga hélst mjög stöðugur á 18. öld og fram á síðasta fjórðung 19. aldar. Þar sem árleg talning á íbúafjölda í hagtölum 19. aldar byggðist á skýrslum presta eftir sóknum eru fáar vísbendingar til um fjölda landsmanna eftir sveitarfélögum þrátt fyrir að þau hafi gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi allt frá því að land byggðist. Til eru hins vegar upplýsingar um landsmenn eftir sveitarfélögum nálægt árinu 1844 sem greina frá íbúatölu í 169 sveitarfélögum.

Meðalfjöldi íbúa sveitarfélaga árið 1703 var 309 en var 342 árið 1844. Árið 1901 var þessi tala komin í 406 íbúa. Vegna stöðugrar fjölgunar sveitarfélaga í landinu fram á miðja 20. öld jókst meðalíbúafjöldinn einungis um rúmlega 200 manns þrátt fyrir nokkuð hraða fjölgun þjóðarinnar. Meðalfjöldi í sveitarfélagi árið 1950 var 630 en var kominn í eitt þúsund íbúa árið 1978. Vegna áðurnefndrar fækkunar sveitarfélaga eftir 1986 varð mikil breyting á þessum meðalfjölda sem var 5.057 manns í árslok 2019.“

Sjá nánar hér

mbl.is