Starfsemi Landspítalans verið umbylt

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Starfsemi Landspítalans hefur verið umbylt til að takast á við verkefni tengd kórónuveirunni. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, sem fer yfir starfsemina í vikulegum forstjórapistli sínum.

Þar kemur fram að Landspítali sinnir öllum smituðum á göngudeild Covid-19. „Markmiðið er að veita fólki stuðning í heimahúsi með fjarheilbrigðisþjónustu, um leið og ástand smitaðra er áhættugreint. Þannig er sérstaklega fylgst með þeim sem er ekki að batna og unnt er að kalla fólk inn til sérstakrar skoðunar á göngudeildinni í Birkiborg eða í gámum við bráðamóttökuna,“ skrifar hann.

Þar er reynt að sinna sjúklingum með stuðningsmeðferð svo að þeir komist aftur heim og nái að jafna sig þar. Með þessari skipulögðu aðferð er reynt að hindra innlagnir eins og kostur er, enda oftast best að vera heima í einangrun og jafna sig. Ef sjúklingar þarfnast innlagnar fara þeir á smitsjúkdómadeild A7. Það mun þó ekki duga, að sögn Páls, og taka þá aðrar deildir við sjúklingum.

Gámur við Landspítalann.
Gámur við Landspítalann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ærið verkefni að takast á við biðlista

Gjörgæslumeðferð hefur verið undirbúin fyrir þá sem veikjast alvarlega og gert hefur verið ráð fyrir ýmsum sviðsmyndum í tengslum við hana. Hefðbundin starfsemi fer áfram fram. Tekið er áfram á móti bráðveikum sjúklingum á bráðamóttöku en þangað koma einnig þeir sem kunna að vera með ógreindan Covid-19-sjúkdóm. Aðgerðir eru einnig framkvæmdar sem geta ekki beðið. „Það er ljóst að þegar dregur úr viðbúnaði vegna Covid-19 verður ærið verk að takast á við biðlista sem munu þá hafa lengst umtalsvert,“ skrifar hann.

Jafnframt segir hann það hafa skipt sköpum í upphafi undirbúnings vegna farsóttarinnar að stór hópur fólks hjá þeim sem hafði beðið eftir hjúkrunarrými fékk rými á nýopnuðu hjúkrunarheimili við Sléttuveg. „Við það gjörbreyttist staða legudeilda spítalans sem geta nú tekið við sjúklingum sínum af bráðamóttökunni en þar liggja nú engir sjúklingar á göngum eða bíða óhóflega lengi eftir innlögn,“ segir hann.

Starfandi forstjóri Reykjalundar hefur sömuleiðis skrifað undir samstarfssamning við Landspítalann um flutning sjúklinga í virkri meðferð þangað.

mbl.is