Þjófar á ferðinni í borginni

Þjófar voru stöðvaðir í þrígang í matvöruverslun við Fiskislóð síðdegis í gær og í gærkvöldi. Eins var stolið af kaffistofu starfsmanna í fyrirtæki í Árbænum og á bar við Laugaveg.

Þrjár tilkynningar bárust til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, klukkan 17:11, 18:59 og 21:56, um einstaklinga sem voru stöðvaðir er þeir voru að yfirgefa matvöruverslunina við Fiskislóð með varning sem þeir höfðu ekki greitt fyrir. 

Síðdegis var síðan tilkynnt um þjófnað á veski úr yfirhöfn starfsmanns í fyrirtæki í Árbænum.  Yfirhöfnin hafði verið í kaffistofu starfsmanna. Í veskinu voru greiðslukort, ökuskírteini og reiðufé.

Á ellefta tímanum var síðan tilkynnt  um þjófnað á farsíma frá veitingastað / bar við Laugaveg.  Kona sem grunuð er um þjófnaðinn er einnig grunuð um fjársvik þar sem hún yfirgaf staðinn án þess að greiða fyrir veitingar sem hún hafði fengið.

mbl.is