Ströng skilyrði fyrir inngöngu í Þýskaland

María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins.
María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðeins hefur verið tilkynnt eitt tilfelli þess að íslenskum ríkisborgara hafi verið meinuð innganga inn í Þýskaland að sögn Maríu Mjallar Jónsdóttur, deildarstjóra hjá utanríkisráðuneytinu.

mbl.is greindi frá því í gær að Valdimar Khadir Árnasyni hefði verið meinuð innganga í Þýskaland, en þangað var hann kominn til að starfa sem flugvirki.

„Þetta er í raun eina málið sem hefur komið á okkar borð. Það eru mjög ströng skilyrði fyrir því að fólk fái að koma inn í landið,“ segir María. 

María segir að fyrir um viku hafi Þjóðverjar þrengt skilyrði fyrir inngöngu í landið. 

„Í rauninni í framhaldi af ákvörðun Evrópusambandsins og nú er það svo að íbúar Schengenríkja, Bretlands og Sviss geta farið í gegnum Þýskaland á leið sinni heim, en til þess að fara til Þýskalands og inn í landið þarf að hafa gilt dvalarleyfi,“ segir María og bætir við að fyrir utan mál Valdimars hafi sambærileg mál ekki komið upp.

Mikið álag hefur verið á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins á síðustu vikum. 

„Við erum búin að svara vel yfir 3.000 erindum síðustu tvær vikur og nú hefur vel hægst um þegar flestir þeir sem ætluðu sér að koma heim virðast vera komnir. Við höfum haft beint samband við hátt í 2.000 manns sem eru í grunninum okkar til að fá gleggri mynd af stöðunni og til að geta leiðbeint fólki um greiða leið heim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

29. maí 2020 kl. 13:30
1
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir