Gamli leikskólinn sem varð að sérstakri göngudeild

Birkiborg var áður einn af nokkrum leikskólum sem voru við …
Birkiborg var áður einn af nokkrum leikskólum sem voru við Landspítalann í Fossvogi. Nú er þar starfandi sérstök covid-göngudeild og vinna 20 smiðir að því að fjölga herbergjum. mbl.is/Íris

Á gamla leikskólanum Birkiborg við Landspítalann í Fossvogi hefur á síðustu einni og hálfri viku verið unnið myrkranna á milli við að koma upp sérstakri covid-göngudeild sem heldur utan um skoðun sjúklinga sem hafa veikst eftir útbreiðslu kórónuveirunnar.  

20 iðnaðarmenn koma að því að breyta þessu húsnæði Landspítalans, sem stendur að Álandi 6, en þar eru nú fjögur skoðunarherbergi, en verða orðin sjö auk eins dagdeildarherbergis fyrir miðja viku. Í heildina munu á þriðja hundrað manns koma að því að vinna fyrir deildina, en stór hluti þeirra verður þó heimavinnandi.

Fjögur herbergi tilbúin í síðustu viku

Ragnar Freyr Ingvarsson er yfirlæknir á deildinni. Í samtali við mbl.is fer hann yfir hvernig ferlið hafi verið við að koma deildinni upp. Á fimmtudaginn fyrir rúmlega viku síðan var byrjað að standsetja Birkiborg fyrir verkefnið, en fyrstu tvö herbergin voru tilbúin til notkunar á þriðjudaginn. Næsta herbergi bættist við á miðvikudaginn og það fjórða á fimmtudaginn.

Geta sinnt 80 sjúklingum á dag

Þegar mbl.is heyrði í Ragnari í gær voru smiðirnir að vinna að því að standsetja efri hæð hússins, en von er á að það verði klárt fyrir miðja þessa viku. Verða þá komin sjö skoðunarherbergi og eitt dagdeildarherbergi. Verður þá að sögn Ragnars hægt að sinna 80 sjúklingum á dag.

Smiðir og heilbrigðisstarfsfólk var á ferli við Birkiborg þegar ljósmyndari …
Smiðir og heilbrigðisstarfsfólk var á ferli við Birkiborg þegar ljósmyndari mbl.is kom þar við í gær. mbl.is/Íris

„Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Ragnar um hraðann á framkvæmdunum. Líkir hann þessu við þættina Extreme makeover: home edition, nema hér sé auðvitað um heilbrigðisstofnun að ræða með sínum sérhæfðu kröfum.

Hringja 400 símtöl á hverjum degi

Göngudeildin hefur meðal annars það hlutverk að hringja í alla þá sem hafa greinst með smit, skrá niður líðan þeirra og ákveða með næstu skref, meðal annars hvort kalla eigi fólk inn í skoðun eða hvort það eigi að vera í einangrun heima hjá sér. Ragnar segir að deildin sinni nú um 400 símtölum á dag og séu nú rúmlega 40 hjúkrunarfræðingar á skrá, auk þess sem tugir lækna sinni hringingum. Mikill fjöldi þessa fólks sinni starfi sínu að heiman.

Birkiborg.
Birkiborg. mbl.is/Íris

Til viðbótar er stór hluti sérnámslækna spítalans á deildinni og að sinna kórónusmitmálum, auk hjúkrunarfræðinga sem vinni á deildinni. Að lokum segir Ragnar að fjöldi starfsmanna stoðdeilda, tæknideildar og upplýsingatæknideildar komi að starfsemi göngudeildarinnar og telur hann að þegar allt sé talið sé fjöldinn á þriðja hundrað.

„Þetta er ótrúleg starfsemi og ótrúlegt hvernig hefur tekist til að koma henni upp,“ segir hann.

mbl.is

Kórónuveiran

1. júní 2020 kl. 13:23
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir