Fjórðungur Eyjamanna í skimun

Skimunin í Vestmannaeyjum hefur gengið vel.
Skimunin í Vestmannaeyjum hefur gengið vel. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Rúmlega eitt þúsund manns hafa bókað sig í skimun í Vestmanneyjum á næstu þremur dögum. „Þetta fylltist bara strax. Þetta er einn fjórði af Vestmannaeyingum,“ segir Hjörtur Kristjánsson umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi.

Skimunin vegna kórónuveirunnar hófst á bílastæðinu við íþróttahúsið í Eyjum klukkan 10 í morgun og hefur verið nóg að gera. Að sögn Hjartar eru um 12 til 14 manns að störfum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. „Við byrjuðum á hálfum hraða á meðan við vorum að prófa okkur áfram en núna erum við á fullu og skimum 25 á kortéri,“ segir hann. „Þetta hefur gengið eins og í sögu hingað til. Á meðan spjaldtölvur og prentarar virka þá rennur þetta smurt.“

mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Settir hafa verið upp gámar á bílastæðinu og ekur fólk á bílunum sínum þangað eins og sést á meðfylgjandi myndum. Eins og staðan var í gær höfðu 66 smitast af kórónuveirunni í Eyjum, þrír höfðu náð sér, 615 voru í sóttkví og 254 höfðu lokið sóttkví, samkvæmt Tigull.is. Spurður út í þá sem hafa smitast segir Hjörtur að sumir fá létt einkenni og aðrir þyngri, eins og gengur og gerist. Einn Eyjamaður liggur á sjúkrahúsinu á Landspítalanum með staðfest COVID-smit.

mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Hjörtur segir samstarfið hafa verið gott við Íslenska erfðagreiningu, sem útvegaði sýnatökupinna, hugbúnað, græjur og fleira. Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur útvegað starfsfólk og Vestmannaeyjabær skaffað aðstöðuna. Spurður hvort fleiri Eyjamenn geti bókað sig í skimun en þeir eitt þúsund sem þegar hafa gert það segir hann það vera óljóst eins og staðan er núna.

mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir