Samkomubann fram yfir verkalýðsdag

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að samkomubanni vegna útbreiðslu kórónuveiru hér á landi verði aflétt mánudaginn 4. maí næstkomandi. Gera má ráð fyrir að banninu verði aflétt í skrefum. Þetta staðfestir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is.

Á upplýsingafundum almannavarna hefur Þórólfur sagt aðgerðir vera í sífelldri endurskoðun og að það verði áfram á meðan faraldur kórónuveiru gengur yfir. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti yfirstandandi samkomubann á blaðamannafundi 13. mars sl. Var þá stefnt að fjögurra vikna samkomubanni frá og með aðfaranótt mánudagsins 16. mars.

Gera má ráð fyrir að alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, sem haldinn er 1. maí ár hvert, verði svo gott sem slegið á frest. Kröfugöngur og fjöldasamkomur eru ekki leyfðar á meðan samkomubann ríkir.

Aðspurður segir Kjartan Hreinn sóttvarnalækni meðal annars hafa horft til komandi hátíðahalda þegar hann ákvað dagsetninguna. „Já og við teljum heppilegra að gera þetta eftir helgi.“

Bréf sóttvarnalæknis vegna aðgerða í tengslum við samkomubann var sent heilbrigðisráðherra í gær. Búast má við að ráðherrann ræði innihald þess við ríkisstjórnina áður en aðgerðir verða auglýstar í stjórnartíðindum.

mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir