Breytt mat gæti haft áhrif á 225 hælisleitendur

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hjörtur

Fjöldi einstaklinga sem hugsanlegt er að gætu orðið fyrir áhrifum af breyttu mati Útlendingastofnunar á því hvort taka beri Dyflinnar- og verndarmál til efnismeðferðar vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru uppi vegna kórónuveirufaraldursins er um 225.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Þórhildar Hagalín, upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar, við fyrirspurn mbl.is. Þar kemur fram að að svo stöddu sé þó ekki hægt að fullyrða hve mörg mál verða tekin til efnismeðferðar á grundvelli þessa breytta mats. 

Um er að ræða samanlagðan fjölda þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem staddir eru hér á landi og eiga mál til vinnslu hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, fyrir dómstólum og hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða verndar í öðru landi. Um þriðjungur einstaklinganna 225 er börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina