„Samt ótrúlega margir“ á ferðinni

mbl.is/Hari

Eins og víða um land hefur björgunarsveitarfólk í Björgunarfélagi Árborgar á Selfossi staðið í ströngu í dag, og raunar frá því klukkan 22 í gærkvöld. Margar götur í bænum eru ófærar en kraftar sveitarinnar hafa að miklu leyti farið í að flytja heilbrigðisstarfsfólk til og frá vinnu, segir Elvar Már Ölversson, varaformaður Björgunarfélags Árborgar, í samtali við mbl.is.

„Það hafa verið hópar að störfum frá klukkan tíu í gærkvöldi og eru enn þá að,“ segir Elvar og bætir við: „Það eru fjögur tæki á ferðinni. Búin að vera í allan dag. Jeppar og snjóbíll.“ Spurður um verkefni dagsins segir hann: „Aðallega hefur þetta verið að koma heilbrigðisstarfsfólki, og einnig lögreglumönnum, til og frá vinnu. Svo hafa verið sjúkraflutningar fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands.“

Nóg að gera fram á kvöld

Aðspurður segir Elvar að verkefni dagsins hafi gengið ótrúlega vel. „Það kemur sér vel að það eru fáir á ferðinni,“ segir hann en segir svo kíminn, í ljósi þess að nóg hefur verið að gera hjá sveitinni: „En það eru samt ótrúlega margir. Það er alveg nóg að gera.“

Segist hann enn fremur sjá fram á að talsvert verði að gera hjá sveitinni fram á kvöld. „Það eru náttúrlega vaktaskipti á sjúkrahúsinu aftur í kvöld og það er ekkert búið að ryðja af viti. Enn þá er kolófært víða og síðan lítið skyggni.“

mbl.is