Vann tæpar 80 milljónir

Það var bjart yfir vinningshafa sem mætti á skrifstofur Íslenskrar getspár í dag til að ganga frá sínum málum, en hann var með allar tölurnar réttar um liðna helgi. Vinningurinn nam tæpum 79,5 milljónum en miðann hafði hann keypt hjá N1 við Bíldshöfða.

Fram kemur í tilkynningu að vinningshafinn sé Reykvíkingur sem spili nokkuð reglulega í lottóinu og notar yfirleitt sömu tölurnar. Á undanförnum misserum hafi hann fengið nokkra þúsundkalla á þessar tölur en núna var komið að þeim stóra.

„Hann er ekki búinn að taka ákvörðun um hvað gera skal við vinninginn og ætlar að þiggja ráðgjöf sem Getspá býður vinningshöfum. Hann er þó viss um að hann ætlar að láta verða af því að kaupa sér góðan rafmagnsbíl,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is