Alla vega 13.000 í bingói Ali

Hjálmar Örn er stoltur faðir.
Hjálmar Örn er stoltur faðir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Að minnsta kosti þrettán þúsund manns tóku þátt í bingói sem Ali hélt á þriðjudaginn og var á meðal þátttakenda fólk búsett erlendis, segir Einar Páll Gunnarsson, markaðsstjóri Ali, í samtali við mbl.is. Tókst svo vel til að Ali hefur ákveðið að endurtaka leikinn 21. apríl næstkomandi.

„Þrettán þúsund mismunandi símanúmer voru skráð til leiks, sem er eina talan sem við höfum til að miða við. Margir voru þó að sækja spjöld fyrir maka og börn svo ég geri ráð fyrir því að spilarar hafi verið fleiri,“ segir Einar og útskýrir að bingóútsending hafi farið fram í gegnum Facebook. Henni stjórnaði skemmtikrafturinn Hjálmar Örn, sem er þaulvanur bingóstjórnandi, og segir Einar að það hafi þó veirð svolítið skrítið fyrir Hjálmar að vera allt í einu farinn að stjórna bingói með engan spilara í salnum. 

Margir orðnir leiðir á sóttkvínni

Spurður hvernig starfsmönnum Ali, fyrirtækis sem hefur kannski ekki beina tengingu við skemmtanaiðnaðinn, hafi dottið í hug að fara af stað með bingóhald segir Einar: „Margir í kringum okkur, þar á meðal foreldrar mínir, voru orðnir leiðir á að vera í sóttkví og búin að nýta sér alla mögulega afþreyingu sem í boði var. Þau voru búin að horfa á allt sem þau langaði að sjá á Netflix, fara í ótal göngutúra og gátu vitaskuld ekki nýtt sér aðra möguleika eins og bíó, sund eða keilu.“ Þeim hjá Ali hafi því dottið í hug að standa fyrir einhverju örlítið öðru vísi, einhverju sem fjölskyldur gætu tekið þátt í saman og haft gaman af. 

Aðspurður segir markaðsstjórinn Einar að auðvitað liggi að einhverju leyti undir sjónarmið um markaðssetningu en engu að síður hafi það ekki endilega verið aðalhvatinn heldur hafi þau einfaldlega langað að gera eitthvað skemmtilegt. „Maður hefur heyrt af vinahittingum á fjarskiptaforritum eins og Zoom og ég hugsaði með mér að þetta væri bara eins og slíkur hittingur, nema stigi ofar.“ Nefnir hann í þessu dæmi að hann hafi heyrt af hópi fólks sem tók þátt í bingóinu, en hluti hópsins sé búsettur erlendis. „Þau höfðu samskipti í gegnum Zoom og spiluðu saman bingó!“

Eins og áður segir hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn eftir tæpar tvær vikur. „Strax eftir heyrðum við af fólki sem tók þátt og vildi vita hvort við myndum ekki gera þetta aftur, og einnig heyrði ég af fólki sem var súrt að hafa misst af þessu og vildi vita hvort það gæti ekki verið með næst,“ segir Einar.   

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman