80 ár frá því Alþingi tók sér konungsvald

Forsíða Morgunblaðsins að morgni 10. apríl 1940.
Forsíða Morgunblaðsins að morgni 10. apríl 1940. Skjáskot/Tímarit.is

Áttatíu ár eru í dag liðin frá því Alþingi Íslendinga samþykkti að fela ríkisstjórninni meðferð konungsvalds. Danmörk hafði þá degi áður, 9. apríl 1940, verið hernumin af nasistum og var Kristján X. Danakonungur í raun stofufangi og ófær um að sinna skyldum sínum gagnvart Íslandi. Guðni Th. Jóhannesson forseti rifjar atburðarásina upp á Facebook. Segir hann að æðsta vald í landinu hafi þar með færst heim eftir aldalöng yfirráð erlendra konunga.

Ríkisstjórnin hafði konungsvaldið á hendi sér í rúmt ár, þar til embætti ríkisstjóra var sett á laggirnar sumarið 1941 og kaus Alþingi Svein Björnsson til að gegna embættinu, sem hann gerði þar til lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944. Því mætti segja að valdatímabili Danakonungs yfir Íslandi hafi lokið 9. apríl 1940.

Með sambandslögunum frá 1918 hafði Ísland orðið frjálst og fullvalda ríki, en þó í konungssambandi við Danmörku. Höfðu Íslendingar rétt til að segja upp sambandinu við Danmörku að 25 árum liðnum, þ.e. árið 1943, og sættu þeir lagi 1944. Guðni rifjar upp að Danakonungi hafi gramist mjög ráðstöfun Íslendinga. Hann hafi viljað að Íslendingar biðu með þessa ráðstöfun þar til stríðinu lyki og Danir væru lausir úr ánauð.

Þrátt fyrir það sendi Danakonungur íslensku þjóðinni heillaskeyti við lýðveldisstofnun. Margir hafa brotið heilann um hvað varð til þess að konungur sneri „mótþróa sínum upp í heillaóskir og vináttu“ líkt og það var orðað í Vísi 15. júní 1964. Er þar meðal annars haft eftir Íslendingi, sem hafði verið í áheyrn Kristjáns konungs, að Gústaf Svíakonungur hefði talið honum hughvarf. Er það einkum athyglisvert í ljósi þess að tveimur árum síðar hafnaði konungur sjálfstæðisumleitunum Færeyinga, sem höfðu naumlega samþykkt sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðlu.

Hvað sem því líður er ljóst að skeyti konungs breytti miklu um framtíðarsambúð Íslendinga og Dana.

mbl.is

Bloggað um fréttina